Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Tískubyltingarvikan afstaðin

Mynd: DFID - UK / flickr.com

Tískubyltingarvikan afstaðin

04.05.2017 - 14:48

Höfundar

Pistill Stefáns Gíslasonar um tískubyltingarvikuna og Rana Plaza slysið.

 

Eins og allir vita var síðasta vika hin árlega tískubyltingarvika, (eða „Fashion Revolution Week“ eins og vikan nefnist á ensku), sem nú var haldin um heim allan fjórða árið í röð. Orðin „eins og allir vita“ flokkast reyndar sem kaldhæðni. Við stutta leit á Google fannst nefnilega ekki nema eitt dæmi um að fjallað hefði verið um vikuna í íslenskum fjölmiðli, en þetta eina dæmi var á Facebooksíðu hönnunarfyrirtækisins Fólk. Þessi pistill hefði því kannski átt að hefjast á ögn neikvæðari nótum, t.d. „Eins og næstum öllum virðist vera sama um var síðasta vika hin árlega tískubyltingarvika“.

Tískubyltingarvikan hófst mánudaginn 24. apríl, þ.e.a.s. á sjálfum tískubyltingardeginum. Einmitt þann dag voru liðin fjögur ár frá Rana Plaza slysinu í Dakka í Bangladesh þar sem fataverksmiðja hrundi þann 24. apríl 2013 með þeim afleiðingum að 1.138 manneskjur týndu lífi og yfir 2.500 slösuðust.

Rana Plaza slysið er stærsta slysið í sögu fataframleiðslu í heiminum, og er þar þó af nógu að taka, því að í þróunarlöndunum vinnur fjöldi verkafólks við skelfilegar aðstæður við framleiðslu á fötum fyrir Vesturlandabúa sem hugsa meira um að dótið sem þeir kaupa sé ódýrt en að það sé framleitt við mannsæmandi aðstæður.

Rana Plaza slysið vakti marga af værum blundi og í kjölfar þess hefur margt verið reynt til að bæta aðstæður verkafólks í fataframleiðslu í þróunarlöndunum, en þar eru jú saumuð flest föt sem við Vesturlandabúar klæðumst dags daglega. Þann 24. apríl á hverju ári er því vel við hæfi, já, eða kannski næstum því borgarleg skylda, að líta um öxl og velta því fyrir sér hvað hafi áunnist, annars vegar á heimsvísu og hins vegar í eigin fataskáp. Það er nefnilega ekki svo gott að aðstæður verkafólks í fataframleiðslu í þróunarlöndunum séu bara á ábyrgð fataframleiðenda. Þær eru líka á ábyrgð okkar sjálfra, þ.e.a.s. okkar sem kaupum fötin. Ef einhver skyldi hafa verið búinn að gleyma því, þá virka viðskipti alltaf þannig að enginn getur selt neitt nema einhver vilji kaupa það.

Nokkrum dögum fyrir fjögurra ára afmæli Rana Plaza slyssins kom út skýrsla á vegum nokkurra samtaka sem beita sér fyrir mannréttindum og þá sérstaklega réttindum verkafólks. Í skýrslunni, sem í lauslegri íslenskri þýðingu ber yfirskriftina „Fylgjum þræðinum. Þörfin fyrir gagnsæi í aðfangakeðju fata- og skóiðnaðarins“, er m.a. fjallað um viðbrögð 72 stærstu fataframleiðenda heims sem boðið var að gerast aðilar að yfirlýsingu fataiðnaðarins um gagnsæi, eða The Transparency Pledge, eins og yfirlýsingin er kölluð á ensku. Með aðild að þessari yfirlýsingu heita fyrirtækin því að birta upplýsingar sem gera neytendum kleift að finna hvar fötin þeirra eru framleidd. Af skýrslunni má ráða að aðeins fáir af stærstu fataframleiðendunum séu tilbúnir að sýna spilin sín hvað þetta varðar. Þegar skýrslan var skrifuð höfðu þannig aðeins 17 framleiðendur af 72 gerst aðilar að yfirlýsingunni, en að vísu voru þónokkrir til viðbótar með málið í skoðun.

Annar mælikvarði á það hversu vel fataframleiðendur hafa tekið við sér eftir harmleikinn í Rana Plaza er svonefnd gagnsæisvísitala. Aðstandendur tískubyltingarvikunnar birtu einmitt nýjustu tölur hvað þetta varðar á tískubyltingardeginum 24. apríl sl. Vísitalan byggir á úttekt sem gerð var á frammistöðu 100 af stærstu fataframleiðendum heims á tímabilinu janúar-mars 2017. Í úttektinni var skoðað hvernig fyrirtækin stæðu sig í að birta upplýsingar um samfélagslegar og umhverfislegar áherslur sínar, svo og um raunverulegan gang mála og áhrif á umhverfi og samfélag.

Frammistaða fyrirtækjanna sem í hlut eiga getur varla talist uppörvandi, en gagnsæisvísitala þeirra var að meðaltali um 20% af hæsta mögulega skori, og reyndar náði ekkert þeirra 50%. Fyrirtækin Adidas og Reebok eru efst á listanum með 49% árangur, og Marks & Spencer og H&M fylgja þar fast á eftir með 48%. Þrjú fyrirtæki náðu þeim sérstaka árangri að fá einkunnina 0,0, þeirra á meðal tískurisinn Dior. Af öðrum framleiðendum sem eru vel þekktir á Íslandi og skipa sér á neðsta hluta listans má nefna Lacoste með 5% skor, Urban Outfitters með 7%, Prada og Armani með 8% og Ralph Lauren með 9%. Þessar lágu einkunnir þýða ekki endilega að þessu fyrirtæki séu að gera eitthvað rangt (eða rétt), heldur einungis að þau veita litlar sem engar upplýsingar um það hvað þau eru að bauka.

Nú er eðlilegt að fólk velti því fyrir sér hvernig það geti lagt sitt af mörkum til að bæta ástandið í fataframleiðslunni. Til þess eru ýmsar leiðir, en sinnuleysið er svo sannarlega ekki ein þeirra. Fyrsta skrefið gæti t.d. verið að kaupa fatnað sem er merktur með umhverfismerkjum á borð við Norræna svaninn eða Umhverfismerki Evrópusambandsins, nú eða þá Fairtrade eða GOTS, sem er sérstök vottun fyrir fatnað úr lífrænni bómull. Þeir sem eiga i-phone ættu líka að geta sótt sér nýtt smáforrit sem kallast Not My Style og er ætlað að gefa notandanum upplýsingar um frammistöðu einstakra fataframleiðenda. Smáforritið verður væntanlega einnig tiltækt fyrir Android-síma áður en langt um líður. Svo er líka um að gera að spyrja afgreiðslufólk fataverslana um samfélagslega ábyrgð framleiðendanna. Sjálfsagt verður fátt um svör í einhverjum tilvikum, en ef nógu margir spyrja munu verslunareigendur átta sig á að þetta er eitthvað sem skiptir máli. Það að enginn spyrji þýðir hins vegar í stuttu máli að öllum sé sama. Og þá breytist heldur ekki neitt, fyrr en kannski þegar einhver önnur fataverksmiðja hrynur eða brennur með svipuðum afleiðingum og í Rana Plaza.

Til eru mörg fleiri góð ráð fyrir þá sem eru að hugsa um fatakaup og vilja ekki stuðla að hörmungum. Ein leiðin er að fylgja í fótspor Emmu Watson og kaupa aldrei föt nema maður sé viss um að maður noti þau a.m.k. 30 sinnum. Það er heldur ekkert sérstaklega „kúl“ að vera í fötum sem eru gerð úr 60% bómull, 20% svita og 20% blóði, svo vitnað sé í eina af mörgum myndum sem birtust á Twitter í síðustu viku. Það er líka allt í lagi að hafa í huga að á sama tíma og 6 af 20 ríkustu einstaklingum í heimi eiga fataverslunarkeðjur hafa 90% af þeim 75 milljónum manna, sem vinna í fataiðnaði í heiminum, ekki einu sinni möguleika á að ræða um kjör sína eða vinnuaðstæður.

Meginniðurstaðan úr þessum fatahugleiðingum er sú að ef VIÐ viljum ekki að slys á borð við það sem varð í Rana Plaza fyrir fjórum árum endurtaki sig, þurfum VIÐ sjálf að taka okkur saman í andlitinu og „vera breytingin“, eins og Mahatma Gandhi orðaði það á sínum tíma.