Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Tinnaaðdáandi sigldi til Akureyrar

Mynd: RÚV / RÚV

Tinnaaðdáandi sigldi til Akureyrar

11.04.2015 - 11:15

Höfundar

Sænskur aðdáandi Tinna kom til Akureyrar á dögunum í þeim tilgangi einum að leita uppi slóðir Tinna og félaga hans sem fara til Akureyrar í einni af Tinnabókunum. Hann segir að sig hafi dreymt um að koma þangað frá því að hann las bókina sem lítill strákur.

Johan Marcopoulos hefur verið Tinna aðdáandi frá unga aldri. Hann kom sjóleiðina til landsins og ekki að ástæðulausu. „Það er vegna Tinna; hann sigldi og ég verð því að gera það líka,“ segir hann. 

Johan starfar dagsdaglega sem yfirmaður upplýsingamála hjá sænsku geimferðarstofnuninni og hefur gaman af ferðalögum. Heimsókn til Akureyrar hefur verið draumur frá unga aldri. „Tinni fór í mörg ævintýraleg ferðalög á forvitnilega staði. Og ég setti snemma stefnuna á Akureyri.“

Það er í bókinni Dularfulla stjarnan sem að Tinni og félagar koma í höfn á Akureyri til að fylla á olíu, á leið sinni á norðurpólinn. Johan hefur reynt að leita uppi staðina á Akureyri sem Tinni fer á í bókinn en hefur það tekist og eða eru teikningar Herge, sem aldrei kom til Akureyrar, bara skáldskapur. „Bæði og, vil ég segja. Landslagið er áberandi líkt og þessi tími, þegar snjóinn er að taka upp, er afar svipaður en hús og þess háttar eru ekki fyrir hendi,“ segir Johan. 

Aðspurður segist hann hafa komið á aðra staði sem Tinni hefur ferðast til. „Ég hef ferðast á þá staði í tengslum við vinnuna og þá gripið tækifærið til að skoða mig um. En þetta er fyrsta ferðalagið mitt á slóðir sem Tinni fór um.“