Tími til að heilla heimsbyggðina

Mynd: Gísli Berg / RÚV

Tími til að heilla heimsbyggðina

14.05.2019 - 13:30

Höfundar

Matthías Tryggvi Haraldsson söngvari Hatara segir að raddböndin séu í góðu lagi og segir það ákveðinn lúxus að þurfa aðeins að koma fram í þrjár mínútur í senn. Felix Bergsson fararstjóri íslenska hópsins segir að samkvæmt áætlun stígi Hatari á svið í kvöld í Tel Aviv í von um að heilla heimsbyggðina.

Í dag er risastór dagur í lífi Hatara, sem stígur á svið í Expó höllinni í fyrri undanriðli Eurovision 2019 í kvöld. Hatari er 13. atriðið á svið af 17 samtals en 10 lög fara upp úr riðlinum og áfram í úrslitakeppnina sem er næstkomandi laugardag.

Hatara-hópurinn og starfsfólk RÚV keyrði á keppnissvæðið rétt eftir hádegi í dag að staðartíma. Þegar á svæðið er komið tekur við hár, förðun, búningamátun og ýmiss konar undirbúningur. Hópnum gefst færi á að renna atriðinu síðdegis og svo fer að líða að stóru stundinni.

Mynd með færslu
 Mynd: Eurovision official
Fregnir herma að þakið hafi ætlað af Expo höllinni í gær þegar Hatari hafði lokið flutning

Matthías Tryggvi Haraldsson söngvari var dálítið þreyttur í morgun þegar útsendari RÚV náði tali af honum.  „Vonandi fáum við jafn gott rennsli og í gær. Ég á erfitt með þá tilhugsun að keyra upp orkuna en hún er þarna einhvers staðar,“ sagði hann. Raddböndin eru í góðu lagi, sem hljóta að teljast mjög góðar fréttir. „Þetta er algjör lúxus af því þetta eru bara 3 mínútur á stóru sviði, ekki klukkutíma tónleikar á sveittri knæpu,“ segir Matthías Tryggvi um kvöldið. Hann segir gott að fá áhorfendur í salinn, það gefi listamönnunum extra kikk. 

Felix Bergsson fararstjóri íslenska hópsins var einnig brattur. „Þetta verður bara eins og þetta á að vera. Hatari stígur á svið og heillar heimsbyggðina, skulum við vona,“ segir hann. „Ég held að fólk sé gríðarlega spennt. Nú er mikilvægt að passa orkuna sína og gæta þess að allir verði í sínu besta formi klukkan tíu að ísraelskum tíma í kvöld.“

Aðspurður hvort við séum örugg áfram í úrslitakeppnina segist Felix ekki geta fullyrt um það. „Ekki hugmynd, það verður að koma í ljós,“ segir Felix. 

Útsending ísraelska sjónvarpsins KAN hefst klukkan 22 að staðartíma eða klukkan 19 að íslenskum tíma og verður keppnin að sjálfsögðu í beinni útsendingu á RÚV. Eftir að öll atriðin hafa verið flutt á sviðinu verður opnað fyrir kosningu almennings, í þeim löndum sem taka þátt í riðlinum í kvöld sem og á Spáni, Frakklandi og Ísrael. Allar upplýsingar um kosninganúmer birtast í útsendingunni í Sjónvarpinu í kvöld. Hægt er að kjósa 20 sinnum en ekki atriði þess lands sem hringt er frá.

Myndina í haus tók Gísli Berg af meðlimum Hatara.

Tengdar fréttir

Popptónlist

Hatari óttast að ganga of langt

Menningarefni

Frá Gleðibankanum til Hatara

Popptónlist

Áhuginn á Hatara einsdæmi í sögu Íslendinga

Tónlist

„Ertu að segja að ég sé happa?“