Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Tími kominn á eldgos á Reykjanesskaga

Mynd: Samsett mynd / Samsett mynd
Jarðeðlisfræðingur segir kominn tíma á eldgos á Reykjanesskaga. Staðurinn sem beri merki um kvikusöfnun núna sé sennilega einn versti staðurinn á Reykjanesskaga til þess að hafa gos. 

Páll Einarsson, jarðeðlisfræðingur, segir kominn tíma á eldgos á Reykjanesskaga. Skaginn liggi á flekamótum og síðasta eldgos þar hafi verið árið 1240. Frá þeim tíma hafi flekarnir færst í sundur sem útskýrir hvers vegna Reykjavík og svæðið í kring hafi sigið: „Vegna þess að flekarnir eru að færast í sundur, þá þarf náttúrulega að fylla í gatið og það er það sem eldgosin gera. Ef ekki er fyllt í gatið þá síga flekaskilin. Þess vegna sígur landið í Reykjavík og þess vegna verðum við fyrir æ verri sjávarflóðum eftir því sem tíminn líður.“ 

Skelfilegt eða vinsæl alþýðuskemmtun

Fólk hugsi misjafnlega til eldgosa, í aðra röndina sé þetta skelfilegt en í hina sé eldgos vinsæl alþýðuskemmtun. Eldgos hafi ákveðið skemmtanagildi en á móti séum við minnt á það annað slagið að þetta er ekkert grín. 

Páll segir tvo staði á landinu þar sem mögulegt sé að gjósi í þéttbýli. Í Vestmannaeyjum og í Grindavík. Reykjavík sé í sjálfu sér ekki innan hættumarka en gjósi á flekaskilunum séu byggðarlög í næsta nágrenni í hættu. Staðurinn sem beri merki um kvikusöfnun núna sé sennilega einn versti staðurinn á skaganum til þess að hafa gos. 

Páll ræddi stöðuna á Reykjanesskaga í Samfélaginu á Rás 1 í dag. Hægt er að hlusta á viðtalið heild í spilaranum hér að ofan.