Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Timburháhýsi gætu dregið úr losun

Mynd: NRK / NRK

Timburháhýsi gætu dregið úr losun

30.04.2019 - 13:45

Höfundar

Vistspor byggingariðnaðarins er gríðarstórt. Sementsframleiðsla eins og sér losar um 5% af koltvísýringi í heiminum. Er mögulegt að draga úr steypunotkun og þar með gróðurhúsaáhrifum byggingariðnaðarins? Já - með því að nota önnur efni, til dæmis timbur.

Friðrik Páll Jónssn fjallar um háhýsi úr timbri pistli í Samfélaginu á Rás 1. 

Stöðugt fleiri búa í borgum og yfirvöld vilja ekki að borgirnar þenjist út. Ráðið er að þétta byggðina með háhýsum. Timbur hefur hingað til ekki þótt hentugt til háhýsabygginga. Timburhús eru oftast lítil, í mesta lagi nokkrar hæðir og ekki til þess fallin að þétta byggð í borgum. En nú hafa arkitektar og byggingafyrirtæki leyst þennan vanda og bjóða upp á háhýsi úr timbri sem eru miklu vistvænni en steypt hús. Nú þegar hafa nokkur verið byggð og mörg eru á teikniborðinu.

Í síðasta mánuði lauk smíði timburháhýsis við Mjøsa-vatn í Noregi, um 150 km fyrir norðan höfuðborgina Ósló.

Hæsta timburhús í heimi er við Mjøsa í Noregi.
 Mynd: NRK
Verktakar segja litla hættu á því að turninn geti fuðrað upp þó að hann sé úr viði.

Húsið er 85 m hátt, 18 hæðir með 28 íbúðum, skrifstofurými á 5. hæðum og 72 herbergja hóteli. Íbúðirnar eru allar fyrir löngu seldar. Þetta mun vera hæsta hús úr timbri í heiminum. Fyrra met í Noregi var 49 metra hátt timburhús í Björgvin. Klæðningin er úr timbri og burðarverkið úr staurum og límtrésbjálkum og bjálkarnir eru engin smásmíði, ferkantaðir, þykktin 62 x 62 cm og allt að 1,5 m á hornum.Sumir bjálkanna eru 20 m langir og vega 20 tonn. Steypa er notuð í gólf og á efstu hæðunum til að auka stöðugleika þegar vindur blæs.

Fjárfestirinn Arthur Buchardt á frumkvæðið að byggingu háhýsisins. Hér að neðan má sjá viðtal við hann um verkefnið. 

Eldur gæti aðeins brennt ysta lag bjálkanna

Eldhættan; Verktakar segja litla hættu á því að turninn geti fuðrað upp. Bjálkarnir séu svo þykkir að eldur geti aðeins brennt ysta lagið. Veiki hlekkurinn sé stáltengi sem heldur bjálkunum saman, en þau séu með hlífum. Það taki eldinn tvær klukkustundir að ná til stálbitanna.

Hæsta timburhús í heimi er við Mjøsa í Noregi.
 Mynd: NRK
Timbrið í húsið kemur úr næsta nágrenni.

Arkitektinn segir að formin séu einföld. Byggingartæknin hefðbundin. Verklag sem Norðmenn þekki mætavel. Til fyrirmyndar þykir að byggingarefnið er úr næsta nágrenni. Sama gildir um sögunarmyllur og límtrésframleiðslu. Mest af því sem þurfti í turninn fæst í innan við 20 km geisla frá honum.

Húsbyggingin er að mörgu leyti sjálfbær

Og þar er einnig, eins og víðar í Norður-Evrópu, mikil þekking á skógrækt, skógarhöggi, vinnslu efnis og notkun þess. Húsbygging af þessu tagi er að miklu leyti sjálfbær. Timbrið þarf ekki að flytja inn frá Póllandi, Eystrasaltslöndunum eða Rúmeníu með tilheyrandi kolefnisspori. Og þegar tré er fellt í nágrenninu er annað gróðursett í staðinn.

Stærsta límtrésverksmiðja Noregs er í 10 km fjarlægð frá turninum. Hún notar aðeins nærtæk tré og framleiðir 25 þúsund rúmmetra af bjálkum á ári, þeir stærstu tveggja m þykkir og 30 m langir. Eina leiðin til þess að byggja með sjálfbærum hætti er að nota efni úr nágrenninu.

Mjøsaturninn er 85 m hár. En hærri timburturnar eru fyrirhugaðir. Skógræktar- og timburfyrirtæki, sem er hluti af japönsku risasamsteypunni Sumitomo, vill byggja skýjakljúf úr timbri í Tokyo. Hann á að vera 350 m hár, fjórum sinnum hærri en Mjøsa-turninn, næstum fimmfaldur Hallgrímskirkjuturn.

Hann verður 70 hæðir með íbúðum, skrifstofum, verslunum og hóteli. Stefnt er að því að hann verði risinn árið 2041 á 350 ára afmæli Sumitomo. Turninn verður að 90% úr timbri. Rúmmálið 183 þúsund rúmmetrar. 10% byggingarefnisins verður úr stáli. Hann á að standast jarðskjálfta og ofsaveður. Turninn verður framlag til baráttunnar gegn loftslagsbreytingum. Sumitomo segir að hann muni binda jafngildi 100 þúsund tonna af koltvísýringi. Honum er einnig ætlað að styrka skógrækt og timburvinnslu í Japan.

Miklu dýrari kostur

Byggingin kostar næstum tvöfalt meira en sams konar bygging úr steypu og stáli en Sumitomo væntir þess að kostnaðurinn lækki með aukinni tækniþekkingu. Í Lundúnum er fyrirhugað að byggja 305 m háan timburturn, í samvinnu arkitektastofu og Cambridge háskóla. Hann verður úr krossviðarlímtréi og yrði næsthæsti skýjakljúfur Lundúna. Víða annars staðar, t.d. í Frakklandi er stefnt að því að byggja fjölbýlishús úr timbri, allt að 50 m há, og nokkur eru þegar risin. Árið 2016 voru byggð fjölbýlishús úr timbri með 9000 íbúðum í Frakklandi. Það er fjölgun um rúmlega 70% frá árinu 2014.

Styttri byggingartími og minna kolefnisspor

Kosturinn við timburhús er margvíslegur. Kolefnissporið er miklu minna, byggingartími styttri, þau eru gerð úr einingum sem framleiddar eru í verksmiðjum. Ennfremur er auðvelt að taka þau í sundur og byggja ný samkvæmt breyttum kröfum og minna af efninu fer til spillis.

Akstur vörubíla til og frá byggingarsvæði timburhúss er miklu minni en við steypubyggingar. Í stóra samhenginu eru þó steypa og stál nær allsráðandi í byggingariðnaðinum og langmest í Kína og útlit er fyrir að sementsnotkun fari vaxandi á næstu árum. En ef svo fer sem horfir, að timburbygginum fjölgi verulega á næstu árum, verður það góður kostur í baráttunni gegn loftslagsbreytingum svo ekki sé minnst á aðra góða kosti vistvæns byggingarefnis fyrir heilsu manna. Það má ímynda sér að í framtíðinni rísi borgir með fjölda stórhýsa úr timbri með gróðurskrýddum svölum. Það verður eins og skógur á að líta. Og þegar raf- eða vetnisbílavæðingin verður um garð gengin og komnir sjálfstýrðir bílar verður borgarmyndin gjörbreytt frá því sem nú er og borgirnar meira aðlaðandi.