Tímaspursmál hvenær COVID-19 smitast innanlands

03.03.2020 - 19:28
Mynd: RÚV / RÚV
Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá Ríkislögreglustjóra, segir að í kvöld sé von á niðurstöðum úr á þriðja tug sýna vegna mögulegra COVID-19 smita hjá Íslendingum. Enn hefur smit ekki borist manna á milli hér á landi.

„Það hefur ekkert smit orðið innanlands ennþá, en það hlýtur að vera bara tímaspursmál. Við náum að hægja verulega á því með öllum okkar aðgerðum, en ég held að það sé alveg ljóst að við sleppum ekkert við það. Það mun koma smit innanlands og við verðum viðbúin því,“ sagði Víðir í kvöldfréttum sjónvarps.

Alma Möller landlæknir segist einnig óttast smit innanlands, en það sé gleðiefni meðan það gerist ekki. Hlutfall smitaðra miðað við höfðatölu er orðið afar hátt á Íslandi miðað við önnur lönd og meðal annars komið yfir Ítalíu þaðan sem flest smit í Evrópu eru rakin.

„Ég held að þetta skýrist af því að við erum að beita mun harðari aðgerðum en margar aðrar þjóðir. Við fylgjumst með komum til landsins, við setjum fólk í sóttkví og erum fljót að taka sýni þó fólk sýni ekki einkenni. Ég held að það sé fyrst og fremst skýringin,“ segir Alma.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Hlutfall smitaðra af COVID-19.

Væntanleg vangreining á heimsvísu

Það bendir til þess að enn fleiri gætu verið smitaðir á heimsvísu.

„Það eru allar líkur á því. Ég vil nefna sem dæmi Ítalíu. Þó þau séu með svona mörg tilfelli þá hafa þau ekki tilkynnt neitt tilfelli frá Trivento, þar sem Íslendingarnir okkar smituðust. Þar er væntanlega um vangreiningu að ræða.“

En hversu alvarleg er þessi veirusýking?

„Við þurfum að undirbúa okkur vel. Þessi veira er meira smitandi en inflúensa, það er ekki til bóluefni og ekki til meðferð og veiran getur valdið mjög alvarlegum veikindum. 20% veikjast og sem betur fer 80% ekki. 5% veikjast mjög alvarlega og dánartíðnin er 3% sem er umtalsvert.

Það sem við þurfum að gera er að greina snemma, setja í einangrun og í sóttkví. Með þessum aðgerðum, sem mörgum þykja harðar, þá náum við fram tvennu: Við vonandi fækkum tilfellum og verndum þá sem eru veikir fyrir. Og annað sem er mjög mikilvægt, er að við tökum mesta fjöldinn af smitunum svo heilbrigðiskerfið mun ráða betur við,“ segir Alma Möller landlæknir.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Alma Möller, landlæknir
andriyv's picture
Andri Yrkill Valsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi