Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

„Tímamótin í samningunum er stytting vinnuvikunnar“

09.03.2020 - 07:22
Innlent · BSRB · kjaramál
Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
„Ég átti satt að segja ekki von á því um kvöldmatarleytið í gærkvöldi að nóttin myndi fara svona; þá var ennþá nokkuð bið á milli samningsaðila en hlutirnir geta gerst hratt sérstaklega þegar verkföll standa fyrir dyrum,“ segir Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB. Tímamótin í samningunum sé stytting vinnuvikunnar.

Uppfært kl. 08:10: Sjúkraliðafélag Íslands skrifaði undir kjarasamning við ríkið á áttunda tímanum í morgun. Það var síðasta undirritun annasamrar nætur í húsakynnum ríkissáttasemjara, því er öllum verkföllum BSRB nú aflýst.

Sjúkraliðar sem starfa hjá Lansdpítala eru á undanþágu en verkföll sjúkraliða hjá Heilbrigðisstofnunar Norðurlands eiga að hefjast nú í morgunsárið. Annars hefur öllum verkföllum aðildarfélaga BSRB sem byrjuðu eða áttu að byrja á miðnætti hefur verið aflýst, þar sem samningar tókust milli þeirra og viðsemjenda þeirra hjá ríki, Reykjavíkurborg og Sambandi íslenskra sveitarfélaga. „Sem betur fer upp úr miðnætti þá var fyrsti samningurinn undirritaður og svo fljótlega eftir það sá næsti og svo voru þrír undirritaðir í kringum sjötta tímann,“ segir Sonja Ýr.

Aðildarfélög BSRB ræddu launalið samninganna nánast alla helgina. „Það var það sem að samningsaðilar voru raunverulega að mætast með í nótt.“

„Tímamótin í þessum samningum er stytting vinnuvikunnar. Við erum að gera verulegar breytingar á vinnutíma vaktavinnufólks, vinnuvikan er stytt í 36 stundi og það verður hægt að stytta hana niður í 32 stundir fyrir þá sem vinna allan sólarhringinn,“ segir Sonja jafnframt.

Fréttin hefur verið uppfærð með tíðindum af undirritun samnings sjúkraliða og ríkisins.

Mynd með færslu
 Mynd: Kristján Þór Ingvason - RÚV
Sameyki og ríkið við undirritun í nótt.