Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

„Tímamót í styttingu vinnutíma á Íslandi“

03.05.2019 - 12:40
Mynd með færslu
 Mynd: Hólmfríður Dagný Friðjónsd - RÚV
Iðnaðarmenn ganga lengra í styttingu vinnuvikunnar en um var samið í lífskjarasamningnum. Skrifað var undir samning iðnaðarmanna við Samtök atvinnulífsins í nótt. Formaður Samiðnar segir að samningurinn marki tímamót í styttingu vinnutíma á Íslandi.

Samningurinn er til rúmlega þriggja ára eða til nóvember 2022 og gefur félagsmönnum sömu krónutöluhækkanir og í lífskjarasamningnum. Hækkun taxta á samningstímanum nemur 90.000 krónum en almenn hækkun verður 68.000. 

Stærri skref í styttingu vinnutíma

„Við styttum vinnutíma iðnaðarmanna og tökum upp refsiálag fyrir mikla yfirvinnu. Ég tel að ef að vel tekst til í þessu þá gæti þetta verið tímamót í styttingu vinnutíma á Íslandi,“ segir Hilmar Harðarson, formaður Samiðnar. Þá er sér kafli um bakvaktir sem Hilmar segir skipta iðnaðarmenn miklu máli.

Samningurinn gefur félagsmönnum færi á að semja um allt að 36 stunda vinnuviku, með því að láta frá sér kaffitíma. Í lífskjarasamningnum var stytting vinnuvikunnar háð samkomulagi frá bæði starfsfólki og vinnuveitendum en í samningum iðnaðarmanna er ákvæði um að þeir geti stytt vinnutímann án samþykkis vinnuveitanda. „Við erum stíga mun stærri skref í þá átt að ná að stytta og draga úr heildarvinnutíma iðnaðarmanna,“ segir Kristján Þórður Snæbjarnarson, talsmaður samflots iðnaðarmanna.

„Vinnuveitendur munu geta stoppað vinnutímastyttingar ef að meirihluti starfsmanna vill gera slíka breytingu. Þá getur hann ekki komið í veg fyrir það,“ segir Kristján Þórður. Ef samþykki vinnuveitandans fæst ekki getur vinnuvikan orðið styst 36 stundir og 15 mínútur.

Tvískipt álag á yfirvinnu

Þá verður yfirvinnu skipt upp í tvö þrep. „Við erum að taka upp tvær yfirvinnuálögur sem að munu auka verðmæti þeirra sem að vinna mikið og það mun klárlega skila sér,“ segir Kristján Þórður.

Samningarnir taka til um 13 þúsund manns. Niðurstaða atkvæðagreiðslu félaganna á að liggja fyrir 22. maí. Með þessum samningum hafa verið gerðir kjarasamningar fyrir um 44% af þeim sem eru á íslenskum vinnumarkaði.

holmfridurdf's picture
Hólmfríður Dagný Friðjónsdóttir
Fréttastofa RÚV