Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Tímalínan í Wintris-málinu

03.04.2016 - 19:52
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra var helmingseigandi Wintris Inc. frá því í nóvember 2007 og til ársloka 2009. Þetta er meðal þess sem lesa má úr svokölluðum Panama-skjölum, gögnum sem lekið var til þýska blaðsins Süddeutsche Zeitung og geyma viðskiptaupplýsingar aflandsþjónustu fyrirtækis á Panama.

Þetta kom fram í Kastljósi í kvöld. Í þættinum var fjallað um tengsl íslenskra stjórnmálamanna við fyrirtæki í þekktum skattaskjólum. Þátturinn var unninn í samstarfi við Reykjavík MediaAlþjóðasamtök rannsóknarblaðamanna (ICIJ) og þýska dagblaðið Süddestuche Zeitung

Hvenær gerðist hvað?

 • Desember 2006 – Anna Sigurlaug Pálsdóttir stefnir föður sínum til að fá greiddan út arf.
 • Sumar 2007 – Anna Sigurlaug Pálsdóttir semur við föður sinn og fær fyrirfram greiddan arf.
 • 26. nóvember 2007 – Wintris-félagið stofnað. Starfsmaður eignastýringar Landsbankans í Lúxemborg óskar eftir að Wintris Inc. sé tekið frá. Félagið var á lista yfir tilbúin aflandsfélög í umsjón Mossack Fonseca í Panama.
 • 28. nóvember 2007 – Sami starfsmaður Landsbankans í Lúxemborg sendir fyrirmæli til Panama vegna Wintris og óskar eftir að prókúruhafar verði tveir, Anna Sigurlaug Pálsdóttir og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, og að 50% skuli vera í eigu Önnu Sigurlaugar og 50% í eigu Sigmundar Davíðs.
 • Sumarið 2008 – Wintris stofnar bankareikning í Credit Suisse í London.
 • 18. janúar 2009 – Sigmundur Davíð Gunnlaugsson verður formaður Framsóknarflokksins.
 • Mars 2009 – Forsætisnefnd Alþingis samþykkir reglur um hagsmunaskráningu alþingismanna og trúnaðarstörfum þeirra utan þings. Reglurnar taki gildi 1. maí 2009.
 • Apríl 2009 – Sigmundur Davíð Gunnlaugsson tekur sæti á Alþingi.
 • 10. júlí 2009 – Sigurður Atli Jónsson, forstjóri Kviku og mágur Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, sendir bréf til Mossack Fonseca í Lúxemborg þar sem hann segist vilja ræða fyrirkomulag þjónustunnar við Wintris til framtíðar.
 • 31. október 2009 – Frestur til að lýsa kröfum í þrotabú Landsbankans rennur út.
 • 10. desember 2009 – Frestur til að lýsa kröfum í þrotabú Glitnis rennur út.
 • 31. desember 2009 – Frestur til að lýsa kröfum í þrotabú Kaupþings rennur út.
 • 31. desember 2009 – Anna Sigurlaug Pálsdóttir kaupir hlut Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar í Wintris Inc. á 1 dollar.
 • 1. janúar 2010 – Breytingar á lögum um tekjuskatt taka gildi sem kveða á um að tekjur erlendra fyrirtækja í lágskattaríkjum beri að skattleggja hjá eigendum þeirra.
 • September 2010 – Anna Sigurlaug tekur yfir framkvæmdastjórn Wintris Inc. Ekki er hægt að sjá á gögnum að prófkúruhafaréttur Sigmundar Davíðs hafi verið afturkallaður.
 • 10. október 2010 – Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Anna Sigurlaug Pálsdóttir ganga í hjónaband.
 • 9. febrúar 2013 – Sigmundur Davíð er endurkjörinn formaður Framsóknarflokksins.
 • 23. maí 2013 – Sigmundur Davíð Gunnlaugsson skipaður forsætisráðherra Íslands.
 • 11. mars 2016 – Sven Bergman, fréttamaður sænska fréttaskýringaþáttarins Uppdrag Granskning, tekur viðtal við Sigmund Davíð Gunnlaugsson í ráðherrabústaðnum.
 • 15. mars 2016 – Anna Sigurlaug Pálsdóttir birtir færslu á Facebook til að gefa „Gróu á leiti“ frí. Þar greinir hún frá því að hún eigi Wintris Inc.
 • 27. mars 2016 – Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra birtir veffærslu undir yfirskriftinni: „Hvað snýr upp og niður?“
 • 3. apríl 2016 – Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra birtir veffærslu undir yfirskriftinni „Stóra myndin.“
 • Kastljóssþáttur sýndur á RÚV. Þar eru birt gögn um Wintris Inc. og viðtal við Sigmund Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra sem gengur út úr viðtalinu.