Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Tiltölulega auðvelt að blekkja stjórnvöld

Mynd úr safni. - Mynd: RÚV / RÚV
Forstjóri Vinnumálastofnunar telur allt að þriðjung starfsmannaleigna og þjónustufyrirtækja brjóta kjarasamninga. Forsvarsmaður íslenskrar starfsmannaleigu segir gríðarlega þörf fyrir þessi fyrirtæki á Íslandi í dag en segir að eftirlit með þeim sé ekki nógu gott. Fyrirtæki með einbeittan brotavilja geti auðveldlega blekkt eftirlitsstofnanir. 

„Það hefur verið gríðarleg vöntun á bæði menntuðu og ómenntuðu starfsfólki í hin ýmsu störf hér á Íslandi undanfarin misseri. Fyrirtækjum reynist erfitt að fá, meðal annars iðnmenntaða einstaklinga til starfa, þá hafa fyrirtæki sett sig í samband við okkur þar sem við höfum haft milligöngu um að finna réttu aðilana í réttu störfin," segir Böðvar Jónsson, framkvæmdastjóri Íslenskrar verkmiðlunar, sem einkum leigir út sérhæfða iðnaðarmenn. „Oft erum við að headhunta fólk í þau störf sem við erum að leita að. Það má einnig benda á að Ísland er í beinni samkeppni við Noreg og önnur lönd um þetta starfsfólk, sérstaklega iðnmenntaða aðila."

Hjá leigunni starfa 200 manns frá Póllandi, Lettlandi og Litháen. 

Segir enga þörf fyrir starfsmannaleigur

Halldór Grönvold, aðstoðarframkvæmdastjóri ASÍ, telur enga þörf á starfsmannaleigum hér. Þessi milliliður sé óþarfur og ætti, ef allt er með felldu, að hafa í för með sér aukinn kostnað fyrir fyrirtæki. Starfsmannaleigur hafi orðið til í löndum þar sem ráðningarfesta er mikil, erfitt að segja fólki upp. Þar hafi þær verið annar valkostur, nýtt kerfi. Hér sé auðvelt að ráða fólk til skamms tíma og því ættu fyrirtæki að geta ráðið starfsmenn beint til dæmis með hjálp Eures. Fyrirtækin geti veitt beinráðnum starfsmönnum sömu þjónustu og starfsmannaleigur veita, svo sem útvegað þeim húsnæði. 

Mynd með færslu
 Mynd: RUV
Halldór Grönvold.

Böðvar er ósammála. Segir fyrirtækin spara tíma og peninga með því að nýta sér þjónustu starfsmannaleigna sem hafi mun betri forsendur til þess að finna hæft starfsfólk, svo sem í gegnum samstarf við stór vinnumiðlunarfyrirtæki.„Það er óhagkvæmt fyrir fyrirtæki ef þau finna ekki það starfsfólk sem leitað er eftir til að vinna þau störf sem vöntun er á. Við viljum meina að okkar viðskiptavinir sem eru að nota okkur sem starfsmannaleigu séu fyrst og fremst að hugsa um að manna ómönnuð störf en með það að markmiði að reyna að brjóta á starfsfólkinu enda myndum við aldrei leyfa því að gerast."

Þægilegt fyrir fólk sem talar litla ensku

Böðvar segir ávinning starfsmanna mikinn, þeir fái hjálp við að skrá sig í þjóðskrá og fá sér bankareikning, þeim sé útvegað húsnæði og oft bíll til að komast í og úr vinnu. 

„Þegar þau koma til landsins er allt klárt fyrir þau, ekkert sem þau þurfa að gera sjálf."

Halla Rut Bjarnadóttir hjá Verkleigunni tekur undir þetta, segir auðveldara fyrir starfsmenn að ráða sig til starfsmannaleigu en að koma á eigin vegum til landsins. Það sé ákveðið öryggi í því til dæmis fyrir menn sem tali litla ensku. Þá sé þetta fyrirkomulag gott ef verktaki tekur að sér verk sem klárast fyrr en gert var ráð fyrir. Fyrirtækin þurfi ekki að greiða uppsagnarfrest og starfsmennirnir missi ekki vinnuna, þeir fái bara annað verkefni hjá einhverjum öðrum.

Hjá Verkleigunni starfa 150 menn, flestir frá Lettlandi og Litháen. Halla segir að gróflega megi skipta þeim í tvo hópa. Annars vegar séu yngri strákar í ævintýra- og peningaleit, sumir þeirra hafi aldrei farið til útlanda áður. Hins vegar séu fjölskyldumenn sem sendi peninga heim. Verkleigan greiðir lágmarkslaun. Í auglýsingu frá í mars býður hún 1550 evrur á mánuði fyrir ósérhæft starf og 1800 evrur fyrir vaktavinnu við akstur langferðabíls. Halla segir að þetta séu nettó laun og eitthvað hafi þau hækkað síðan í mars. Starfsmenn fái að minnsta kosti 185 þúsund krónur í vasann, þá sé búið að draga húsaleigu frá. Við þetta bætist svo yfirvinna. Oft séu starfsmenn tveir saman í herbergi, hvor um sig greiði þá 55 þúsund krónur í leigu. 

Sprenging 

Síðastliðin ár hefur orðið sprenging í fjölda starfsmannaleigna og erlendra þjónustufyrirtækja hér á landi. Starfsmannaleigurnar eru 28, 11 erlendar og 17 innlendar. Í mars voru starfsmenn þeirra 1104 talsins. Níu af hverjum tíu starfa fyrir íslenskar starfsmannaleigur, einungis 77 starfa fyrir erlendar leigur. Erlendu þjónustufyrirtækin eru fleiri en starfsmannaleigurnar, 49 talsins en starfsmenn þeirra eru einungis 475. Á sama tíma í fyrra voru starfsmannaleigurnar 18, þjónustufyrirtækin 13 og starfsmenn þeirra samtals 637, einn þriðji af þeim fjölda sem nú er á landinu. Þessi fjölgun hófst árið 2015 en það ár komu 505 starfsmenn starfsmannaleigna og þjónustufyrirtækja til landsins. Árið 2014 voru starfsmannaleigurnar einungis fimm, þjónustufyrirtækin fjögur og starfsmennirnir rúmlega hundrað.

Gloppur nýttar

Umræðan um þessi fyrirtæki hefur verið frekar neikvæð. Gissur Pétursson, forstjóri Vinnumálastofnunar, telur að nokkuð sé um að þessi fyrirtæki nýti sér gloppur í kerfinu og greiði ekki laun í samræmi við kjarasamninga. 

„Við teljum að það sé talsverð mikil tilhneiging í þá veru, eigum við að segja þrjátíu prósent."

Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink RÚV - RÚV Anton Brink

Halldór Grönvold telur það algengara en ekki að erlendu fyrirtækin brjóti lög. Þau hafi tilhneigingu til að reyna að flytja hingað til lands þau laun og starfskjör sem tíðkist í heimalandinu. Slík mál komi nánast daglega inn á borð aðildarfélaga ASÍ. 

Böðvar segir sum fyrirtækin sem hann á í samkeppni við bjóða lág verð. „Sem ég tel að ættu ekki að geta koverað þau laun sem ég tel að viðkomandi starfsmenn ættu að vera á.  Við fáum alltaf nokkur svoleiðis mál inn á okkar borð, þar sem við fengum ekki verkefnið í ljósi þess að aðilar voru að bjóða lægri verð en við."

Ekki nógu gott eftirlit

Böðvar segir eftirlit með starfsmannaleigum ekki nógu gott og of auðvelt að blekkja eftirlitsstofnanir. „Til að bregðast við því þurfa að vera fleiri og markvissari vinnustaðaheimsóknir eftirlitsaðila."

Verkamaður eða smiður?

Böðvar segir að helstu brotin felist í því að ekki sé greitt í samræmi við kjarasamninga. „Það eru tvær skýrar leiðir sem fyrirtæki geta farið til að gera það. Annars vegar þessi 183 daga regla sem er umdeild, þá er oft verið að greiða fólki laun erlendis og þar af leiðandi nær ómögulegt að fylgjast með því hvað þeir eru að fá greitt. Þegar þessir einstaklingar loks finnast í kerfinu eru þessir aðilar kannski farnir af landi brott þegar það á að fara að bregðast við. Hin leiðin er að skrá menntaðan smið, til dæmis, sem verkamann og greiða honum eftir því. Eftirlitsaðilar þurfa þá að færa sönnur á hvort maðurinn er smiður eða verkamaður. Ég held það sé bara mjög erfitt fyrir eftirlitsstofnanir að fylgjast með þessu. Með markvissari vinnu og fleiri heimsóknum væri hægt að koma í veg fyrir þetta að einhverju leyti en trúlega ekki öllu." 

Afþakkaði svindltilboð

Halla hefur orðið vör við brotastarfsemi í þessum geira, menn vinni hér en fái greitt úti samkvæmt töxtum sem þar tíðkist. Þeir séu sviknir um orlof, veikindadaga og þvíumlíkt. Nýlega hafi fyrirtæki frá Lettlandi boðið henni að gera slíkan samning og hún afþakkað. Hún segir ekkert fylgst með smærri verktökum sem fái til sín fólk að utan, þar sé hættan á brotastarfsemi meiri og mennirnir einangraðri, einn eða tveir að vinna en ekki hundrað menn sem allir búi saman. Dæmi séu um að verktakar hafi nálgast starfsmenn á hennar vegum og platað þá með því að bjóða þeim hærra tímakaup í verktöku. Einn situr uppi með milljóna króna skuld. „Öryggið liggur í starfsmannaleigum þó fólk haldi annað," segir hún. 

Ekki æskilegt til lengdar

Spegillinn ræddi við erlendan mann sem þekkir menn sem unnið hafa fyrir íslenskar starfsmannaleigur. Hann segir dæmi um að þeir séu fjórir saman í herbergi. Laun þeirra hér séu oft um þrefalt hærri en í heimalandinu en margir átti sig ekki strax á því að þeir séu á lægsta taxta. Hann segir ekki æskilegt fyrir neinn að starfa lengur hjá starfsmannaleigu en í nokkra mánuði. Eftir þann tíma ættu menn að reyna að færa sig annað. Það geti þó ekki allir, sérstaklega ekki þeir sem tali ekki ensku. 

Sammála um keðjuábyrgð

Böðvar og Halldór eru sammála um mikilvægi þess að frumvarp um keðjuábyrgð í byggingageiranum nái fram að ganga. Aðalverktakar sem kaupa þjónustu starfsmannaleigna og þjónustufyrirtækja þurfi að bera ábyrgð líka, greiða starfsmönnum laun ef undirverktakinn svíkur þá. 

Ryðguð keðja.
 Mynd: Gesine Kuhlmann - RGBStock

„Með frumvarpinu erum við strax að sjá ákveðna möguleika á að sækja réttindi þeirra til notendafyrirtækja, þar sem það á við."

Segir Halldór. Með notendafyrirtæki er átt við aðalverktaka. Fyrsta umræða um frumvarp félagsmálaráðherra um útsenda starfsmenn var á Alþingi í gær og var málinu vísað til Velferðarnefndar. Frumvarpið felur í raun í sér innleiðingu Evróputilskipunar um útsenda starfsmenn.

„Að mínu mati er afar mikilvægt að frumvarpið verði samþykkt sem allra fyrst hér á þinginu, ekki síst í ljósi þess að aldrei hafa fleiri erlendir ríkisborgarar starfað á vinnumarkaði hérlendis en í byrjun þessa árs, þá voru þeir um 10,3% þátttakenda."

Sagði Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, sjávar- og landbúnaðarráðherra en hún kynnti frumvarpið og svaraði spurningum fyrir hönd Þorsteins Víglundssonar, félagsmálaráðherra.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Þorgerður Katrín.

Ríki hafa samkvæmt tilskipuninni val um í hvaða geirum keðjuábyrgðin er innleidd. Þingmenn Vinstri grænna, sem fyrr í vetur lögðu til að keðjuábyrgð yrði innleidd á vinnumarkaðnum öllum, töluðu fyrir því að keðjuábyrgðin takmarkaðist ekki við erlenda starfsmenn í byggingageiranum. Hvað um ræstingar og ferðaþjónustu spurði Steingrímur J. Sigfússon. 

„Mér finnst þetta svolítið gamaldags hugsun. Jú, auðvitað þekkjum við þetta og erum brennd af reynslu í mannvirkjagerð, eins og á Kárahnjúkum. Öll þau ósköp sem gengu á þar. En við þurfum líka að skoða aðstæður eins og þær eru á vinnumarkaði í dag."

Halldór segir að í Noregi hafi aðalverktakar farið að vanda val á starfsmannaleigum og þjónustufyrirtækjum betur eftir að lög um keðjuábyrgð tóku gildi.

Ríkari heimildir til eftirlits

Frumvarpið á einnig að auðvelda eftirlitsstofnunum að hafa eftirlit með starfseminni og öðlast betri yfirsýn. Vinnumálastofnun á að fá auknar heimildir til að afla upplýsinga, um starfsemi þjónustufyrirtækja og starfsmannaleigna, og miðla þeim til eftirlitsstofnana, svo sem um hvort fyrirtækin séu með efnahagslega starfsemi í heimalandinu, sem er forsenda starfseminnar hér, eða bara pósthólf. Þá er lagt til að Vinnumálastofnun geti lagt stjórnvaldssaktir á fyrirtæki sem veita ekki upplýsingar eða veita rangar eða ófullnægjandi upplýsingar, óháð því hvort ásetningur býr að baki eða ekki. Halldór væntir þess að þessar skýru heimildir verði til þess að Vinnumálastofnun fylgi málum frekar eftir. 

Þorgerður telur fyrirhugaða löggjöf ekki kalla á auknar fjárveitingar til Vinnumálastofnunar. Steingrímur J. Sigfússon, gagnrýndi það. 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Lágmarkslaun ræstingafólks eru með því lægsta sem gerist, 244 þúsund krónur á mánuði.

 

Starfsmannaleigur og þjónustufyrirtæki

Nokkur munur er á starfsemi þjónustufyrirtækja og starfsmannaleigna og ólíkar kröfur eru gerðar til þeirra. En í hverju felst þessi munur? Bæði starfsmannaleigum og erlendum þjónustufyrirtækjum er skylt að tilkynna sig til Vinnumálastofnunar, veita upplýsingar um starfsmenn sína hér á landi og skila afriti af ráðningarsamningum. Þjónustufyrirtækin eru verktakar sem gera samning við eitthvert íslenskt fyrirtæki um að sinna ákveðnu verki, þau senda starfsmenn og verkstjóra með þeim. Það fyrirtæki sem nýtir sér þjónustuna leigir sumsé bæði starfsmenn og verkstjóra beint af verktakafyrirtæki. Starfsmannaleiga ræður starfsmenn til sín og leigir þá út til íslenskra fyrirtækja. Starfsmennirnir starfa þá undir verkstjórn þess fyrirtækis. 

Allir eiga að fá greitt skv. íslenskum kjarasamningum

Allir sem vinna hér á landi eiga að fá greitt samkvæmt íslenskum kjarasamningum og njóta allra þeirra réttinda sem íslenskt launafólk nýtur. Þetta er algerlega óháð því hversu lengi þeir starfa hér. Um starfsmenn starfsmannaleigna gildir einnig að þeir eiga að lágmarki njóta sömu launa og starfskjara og þeir hefðu gert hefði fyrirtækið ráðið þá beint til að gegna sama starfi. Íslensk verkmiðlun býður, að sögn Böðvars, starfsmönnum að senda trúnaðarmönnum á vinnustöðum launaseðla þeirra, þeir geti þá kannað hvort launin séu í samræmi við laun annarra á vinnustaðnum.

Meginreglan er sú að tekjur erlendra þjónustufyrirtækja og starfsmannaleigna vegna þjónustu sem veitt er hér á landi eru skattskyldar, í ákveðnum tilvikum geta þau þó sótt um undanþágu á grundvelli tvísköttunarsamninga. Skattskylda þeirra sem starfa hjá starfsmannaleigum er þó ríkari en starfsmanna þjónustufyrirtækja. Ef starfsmaður þjónustufyrirtækis dvelur hér skemur en sex mánuði á ári eða 183 daga og þjónustufyrirtækið er ekki með fasta starfsstöð hér á landi þarf hann ekki að greiða tekjuskatt hér. Starfsmenn starfsmannaleigu sem dvelja hér skemur en sex mánuði á ári greiða skatt af þeim tekjum sem þeir afla sér hér. Dvelji þeir hér lengur þurfa þeir að greiða skatt af öllum tekjum sem þeir afla, innan lands sem utan. 

Aðallega áhyggjur af erlendum fyrirtækjum

Vinnumálastofnun hefur fyrst og fremst áhyggjur af því að erlend fyrirtæki brjóti gegn starfsmönnum sínum og hefur lagt sérstaka áherslu á að hafa eftirlit með þeim. 

„Þeir koma hingað til lands og við förum alltaf yfir ráðningarsamninginn þeirra og göngum úr skugga um að þeir séu í samræmi við íslenska kjarasamninga. Séu þeir það ekki köllum við eftir úrbótum og yfirleitt gengur það vel. Reynslan hefur þó sýnt okkur það að launagreiðslur eru ekki endilega í samræmi við þann ráðningarsamning sem við fáum."

Segir Sandra Árnadóttir, sérfræðingur hjá Vinnumálastofnun.

„Hitt einhvern veginn rúllar mjög vel, með innlendu starfsmannaleigurnar, þær hafa oftast sýnt mikinn samstarfsvilja og hafa sína hluti í lagi."

Taka stikkprufur

Stofnunin getur fengið upplýsingar frá ríkisskattstjóra um hvaða laun starfsmenn innlendra starfsmannaleigna hafa sannarlega fengið greidd. Stofnunin getur óskað eftir launaseðlum og bankamillifærslum frá erlendum þjónustufyrirtækjum og starfsmannaleigum en það er ekki gert alltaf. 

„Þetta eru náttúrulega orðnir ansi margir starfsmenn sem eru hér skráðir þannig að við tökum svona stikkprufur."

Heimildum sjaldan beitt

Vinnumálastofnun hefur heimildir til að beita dagssektum eða loka starfsstöð fyrirtækis tímabundið en þeim hefur sjaldan verið beitt. Frá árinu 2015 hefur stofnunin tvisvar lokað starfsstöð. 

„Gjarnan er það svo að þegar við erum farin út í þessar aðgerðir þá taka fyrirtækin skref til baka og fara jafnvel úr landi." 

Halldór segir Íslendinga almennt hafa verið óþarflega þolinmóða gagnvart fyrirtækjum sem ekki standa sína plikt, þau fái tækifæri til að laga og bæta. Þeim séu ekki send skýr skilaboð um að eitt brot sé einu of mikið.

Háð ábendingum frá almenningi

Vinnumálastofnun hefur þurft að yfirfara verkferla og færa til starfsfólk innanhúss vegna aukinna umsvifa starfsmannaleigna og þjónustufyrirtækja hér á landi. Sandra telur að stofnunin hafi nokkuð góða yfirsýn þó alltaf megi bæta í. Stofnunin sé háð því að henni berist ábendingar um brot frá almenningi, fyrirtækjum eða samstarfsaðilum, svo sem stéttarfélögum, vinnueftirliti og ríkisskattstjóra. Starfsmennirnir geti ekki endilega veitt aðhald, margir þeirra vinni hér einungis í nokkra mánuði, standi utan samfélagsins og hafi litla möguleika til að kynna sér rétt sinn. Vinnumálastofnun hefur undanfarið lagt áherslu á að fara í vettvangsferðir og afhenda starfsmönnum erlendra þjónustufyritækja bæklinga með upplýsingum um réttindi þeirra á vinnumarkaði. 

Aðhaldið á Facebook

Halla segir aftur á móti að fyrirtæki á borð við hennar komist ekki upp með að koma illa fram við fólk. Ástæðan er að hennar sögn ekki eftirlit stjórnvalda, eflaust gæti starfsmannaleiga með einbeittan brotavilja platað stjórnvöld. Aftur á móti sé erfiðara að plata hóp af fólki. „Þeir gúggla mig áður en þeir koma, þeir segja frá því í Facebook-hópum ef illa er komið fram við þá og þá er starfsmannaleigan búin að vera í bransanum," segir Halla. 

 

arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV