Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Tilþrifalítil saga fléttuð upp úr sakamálafréttum

Mynd: RÚV / RÚV

Tilþrifalítil saga fléttuð upp úr sakamálafréttum

09.11.2019 - 12:05

Höfundar

Nýjasta skáldsaga Ólafs Jóhanns Ólafssonar minnir óþægilega á nýlegt íslenskt sakamál segir Gauti Kristmannsson gagnrýnandi.

Gauti Kristmannsson skrifar:

Höfundur þessarar bókar hefur lengi búið og býr enn, að mér skilst, vestanhafs í Nýju Jórvík. Hann fylgist þó vel með fréttum hér á landi ef marka má þessa nýjustu skáldsögu hans, og raunar þá síðustu líka. Í grunninn beitir hann nákvæmlega sömu aðferð í báðum þessum glæpasögum; ódæði sem við þekkjum úr fréttum eru tekin upp aðeins breytt og verða síðan að rannsóknarefni miðaldra konu sem kemur erlendis frá; í þessu tilfelli er það forrík íslensk kona sem býr í einni þessara New York íbúða sem fæstir Íslendingar koma nokkru sinni inn í, hvað þá eiga. En vegna þess að hún var gift manni af arabískum ættum og hafði komið að þýðingu Kóransins, reyndar úr ensku, er hún fengin til að aðstöða rannsóknalögregluna á Íslandi við morð á arabískum innflytjanda. Á það morð skyggir svo hvarf ungrar konu og minnir það meira en óþægilega á hvarf Birnu Brjánsdóttur fyrir rúmum tveimur árum.

Nú má deila um hversu smekklegt það er að taka upp raunveruleg sakamál og gera sér mat úr þeim í skáldsögu, en ég spyr mig frekar um tilganginn í þessu tilfelli. Málið er okkur í fersku minni og ég botna ekki alveg í því hvernig okkur á að nýtast sú vitneskja við lestur þessarar bókar. Raunar fannst mér það hreinlega truflandi og það eru fleiri hlutir sem minna á fréttaflutning þessara daga veturinn 2017, til að mynda hitt málið sem er morðmál á innflytjanda, en gagnrýnt var að á svipuðum tíma hefði ekki orðið jafn mikið uppnám vegna hvarfs pólsks manns, lögregla hafi ekki sett allt sitt í þá leit. Við erum því í mjög kunnuglegu samtímaumhverfi og þekkjum þessar fréttir vel.

Sjónarhornið sem höfundurinn tekur er hins vegar ekki ógalið, hugsanlega vegna þess að það er í raun og veru hans eigið, það er að sögukonan er Íslendingur sem lengi hefur búið erlendis og kemur aðeins að heimsækja landið annað veifið. Þessi sögukona kemur aðeins til Íslands í þetta sinn til að dreifa ösku vinar síns og verður veðurteppt, svona dálítið eins og í Ófærð hér um árið. Við fáum þess vegna sjónarhorn þess sem er flestum hnútum kunnugur en er samt dálítið framandi vera í þessu landi, sem breyst hefur svo algjörlega frá fyrri tíð. Þessi hálfframandi sögukona gerir höfundi þannig kleift að koma með viðbótarupplýsingar um menningu, þjóð og siði; vafalaust er það fremur hugsað fyrir útlenda lesendur, enda minnir þetta svolítið á hvernig þýðendur, einkum á ensku, bæta stundum við skýringum inn í þýðingar sínar, læða þeim inn til að lesturinn truflist ekki með spurningamerki um hvað þetta sé nú eiginlega?

Gallinn við svona „lesendamiðaða“ nálgun er hins vegar sá að þau sem eru öllum hnútum kunnug truflast af því að lesa um sjálfsagða hluti sem ekki þarf að segja þeim og stundum snýst það upp í að mér finnst nánast eins og höfundurinn sé að skopstæla eigin sögu. Á einum stað segir lögreglukonan Dóra til að mynda við sögukonuna: „Þetta er svo lítið þjóðfélag að annaðhvort þekkjum við til þeirra sem í eiga í hlut eða getum kynnt okkur þau á augabragði, sagði hún. Flest mál eru upplýst á nokkrum klukkustundum eða dögum í mesta lagi.“ Þetta vitum við flest og höfundur snýr kannski þess vegna upp á það með þessum orðum í framhaldinu: „Það er bara í glæpasögum sem fléttan er snúin og allt á huldu fram á síðustu stund.

Lestu þær? Spurði ég. Glæpasögurnar?

Nei, guð minn góður. Ég fæ nóg af þessu í vinnunni. Ég les helst ævisögur – og ljóð, bætti hún við. Mér finnst gott að lesa ljóð fyrir svefninn.“ Höfundurinn er hins vegar að skrifa nákvæmlega svona glæpasögu þar sem allt er á huldu fram á síðustu stundu og ekki verður rakið hér.

Sama má segja um nákvæmar lýsingar öku- og gönguferða þar sem götur Reykjavíkur eru þræddar eins og það skipti einhverju máli hvaða leið menn aka eða ganga, þetta er næstum eins og farið hafi verið yfir leiðina í Google Maps og hún síðan skráð niður í frásögnina. Dæmi um þetta er þegar við fáum nákvæma lýsingu á gönguferð sögukonunnar frá Austurstræti yfir í Grjótaþorp gegnum Fischersund og fáum að vita í leiðinni að bárujárnshúsin hafi flest verið tekin í gegn á tíunda áratugnum en verið illa haldið við síðan.

Bók með þessum titli tekur vitanlega á einu af stórmálum samtímans, málefnum innflytjenda, eða flóttamanna sem hafa aðra stöðu og verri og hefði höfundur aðeins mátt kynna sér betur muninn sem þarna er á, en það er smáatriði í samhengi sögunnar. Með því að nýta sér fréttirnar frá 2017 kemur fram sú andstæða sem áhersla er lögð á með viðfangsefninu sjálfu, án þess þó að sögukona felli mikla móralska dóma. Hún er þó ekkja arabísks manns og þess vegna alveg laus við fordóma, en í þjóðfélaginu koma þeir fram á einum tíma, rétt eins og hér á landi, þegar í ljós kom að sökudólgurinn í máli Birnu Brjánsdóttur var grænlenskur maður. Þá umræðu kvað faðir hennar hins vegar í kútinn á sínum tíma með skorinorðri yfirlýsingu. Höfundur gerir mjög heiðarlega tilraun til að draga upp raunverulegar manneskjur í múslímunum sem hann skrifar um, en byggir þó á einhverjum fyrirmyndum um múslímafélögin tvö í Reykjavík. En þegar á öllu er á botninn hvolft er staða innflytjandans ekki málið og sú, vissulega nokkuð fyrirsjáanlega, niðurstaða olli mér dálitlum vonbrigðum.

Annað atriði sem vafalaust truflar suma en aðra ekki er stíllinn og orðafarið í textanum. Þetta er algjörlega raunsæisleg frásögn og varla nokkra purpupjötlu í honum að finna, nema þá kannski helst þegar sögukonan vitnar í eigin gagnrýni á matstaði sem hún hefur stundað um áratugi. Annars rennur frásögnin fram lygn og skýr, rökrétt og ljós; þetta er glæpasaga sem reynt er að gera svolítið „Nordic noir“ með veðrinu og kvenlöggunni sem fær þó ekki mjög mikla athygli í karakteriseringu; reynt er þó að gefa sögukonunni nokkuð fjölbreyttan bakgrunn, forvitnilegan kannski, en málið er að það er hún sem talar í fyrstu persónu í gegnum söguna og hún nær aldrei neinu flugi vegna þess flata og kyrra stíls sem sagan er sögð í. Kannski er það viðeigandi, sögukonan hlýtur að vera komin á sjötugsaldur og er að auki afar settlegur yfirstéttarborgari í New York. Málfarið er vissulega þeirrar kynslóðar sem lærði að vanda stíl sinn við að lesa Íslenskar úrvalsgreinar í menntaskóla en mér finnst höfundur eiginlega lýsa stílnum sjálfur þegar sögukonan gagnrýnir einn af eigin dómum sem hún birtir undir dulnefninu August Hall:

„Dómurinn er hvorki góður né slæmur, á hvorki eftir að laða að nýja viðskiptavini né fæla þá frá. Aðdáendur Augusts Hall munu varla gleðjast yfir nokkru í honum því engin setning situr eftir, engar hugleiðingar koma á óvart, hann er dauflegur í alla staði. Uppbyggingin er ekki eftirminnileg, athugasemdirnar kunnuglegar, og þar sem gagnrýnandinn hefði hæglega getað skellt á skeið virðist hann hafa setið á sér, rétt eins og hann hafi ekki viljað taka neina áhættu og kannski verið meira að hugsa um eigið skinn en að gera lesendum sínum til hæfis.“
(360)

Sannast sagna þykir mér þetta allt eins vera lýsing á bókinni sjálfri, frá mínum bæjardyrum séð, en kannski er höfundurinn einmitt að gera lesendum sínum til hæfis, lesendur sem hann á marga og vilja kannski ekki annað. En mér finnst hins vegar að skáldskapurinn kalli á meira en að flétta saman glæpasögu upp úr nýlegum sakamálafréttum á Íslandi.

Tengdar fréttir

Bókmenntir

„Hefði verið sprautaður með rítalíni daglega“

Bókmenntir

Menningarárekstrar múslima á Íslandi