Tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs

Mynd með færslu
 Mynd: Helge Skodvin/Gassi - Samsett

Tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs

20.02.2020 - 13:40

Höfundar

Bergsveinn Birgisson og Fríða Ísberg eru tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs. Tilkynnt verður um verðlaunahafann á verðlaunahátíð Norðurlandaráðs í Reykjavík í október.

Tilnefningar til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs voru kynntar í dag. Skáldsagan Lifandilífslækur eftir Bergsvein Birgisson og sagnasafnið Kláði eftir Fríðu Ísberg eru tilnefndar fyrir Íslands hönd en alls eru 13 norrænar skáldsögur, smásagnasöfn og ljóðabækur tilnefndar til verðlaunanna.

Bók Bergsveins fjallar um baráttu fátækrar þjóðar fyrir réttinum til eigin skynjunar og lífsskoðunar, „um yfirgang valdhafa, nýlendustefnu, arðrán og vanhelgun náttúrunnar,“ eins og segir í rökstuðningi dómnefndar. Þar miðli höfundur ógleymanlegu sögusviði með einstakri stílgáfu og af miklu næmi „Eins og fyrri verk Bergsveins sýna hefur hann meistaraleg tök á hinni sögulegu skáldsögu. Við bætist yfirgripsmikil þekking hans á söguefni og sögusviði. Það er makalaust að sagan Lifandilífslækur skuli í senn geta verið svo trú tíma sínum og rúmi í norrænni sögu en jafnframt svo beinskeytt í tilvísun sinni til nútímans.“

Í umsögn dómnefndar um sagnasafn Fríðu Ísberg segir að hún sé einn eftirtektarverðasti rithöfundur nýrrar kynslóðar og sagnasafn hennar sé fallegt dæmi um þá vorvinda sem borist geta með ungum höfundum inn í bókmenntirnar. „Sögurnar í Kláða fjalla í stórum dráttum um það hvernig í ósköpunum er hægt að vaxa úr grasi og taka því hlutskipti sem bíður nútímamanns. Það er skrifað um kynlíf og parasambönd; átök kynslóða og kynja; klám og firringu; böl staðalímynda og fíknar; sekt og kúgun; hefðir með tómahljóði; harðsótta, tímafreka ást; og þrautseiga, kæfandi sorg.“

Íslensku dómnefndina skipuðu Kristján Jóhann Jónsson, Kolbrún Bergþórsdóttir og Sunna Dís Másdóttir. Á vef Norðurlandaráðs má nálgast frekari upplýsingar um tilnefndar bækur auk rökstuðnings dómnefnda.

Tilkynnt verður um verðlaunahafann á verðlaunahátíð Norðurlandaráðs í Reykjavík í október.

Mynd: Jórunn Sigurðardóttir / RÚV
Fjallað var um tilnefningarnar í þætti Jórunnar Sigurðardóttur, Orðum um bækur á Rás 1.

Eftir­talin bókmenntaverk eru tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2020:

 • Ís­land
  Lifandi­lífs­lækur. Höfundur Berg­sveinn Birgis­son. Skáld­saga, Bjartur, 2018.
  Kláði. Höfundur Fríða Ís­berg. Smá­sagna­safn, Partus for­lag, 2018.
 • Dan­mörk
  YA­HYA HASSAN 2. Höfundur Ya­hya Hassan. Ljóða­bók, Gylden­dal, 2019.
  HHV, FRS­HWN - Dødskn­aldet i Amazonas. Höfundur Hanne Højga­ard Viemose. Skáldsa…
 • Finn­land
  Vem döda­de bambi? Höfundur Monika Fager­holm. Skáld­saga, Förlaget M, 2019.
  I­h­mettä kaikki. Höfundur Juha It­konen. Skáld­saga, Otava, 2018.
 • Fær­eyjar
  Ikki fyrr enn tá. Höfundur Odd­fríður Marni Rasmus­sen. Skáld­saga, Sprotin, 2019.
 • Noregur
  Den gode vennen. Höfundur Bjørn Esben Al­ma­as. Skáld­saga, Oktober for­lag, 2019.
  Vi er fem. Höfundur Matias Fald­bakken. Skáld­saga, Oktober for­lag, 2019.
 • Samíska tungu­mála­svæðið
  Juolgevuođđu. Höfundur Niillas Hol­m­berg. Ljóða­bók, DAT, 2018.
 • Sví­þjóð
  Margina­li­a/Xt­ermina­li­a. Höfundur Johan Jön­son. Skáld­saga, Albert Bonni­ers förlag 2019.
  W. Höfundur Ste­ve Sem-Sand­berg. Skáld­saga, Albert Bonni­ers förlag, 2019.
 • Álands­eyjar
  När vänd­krets läggs mot vänd­krets. Höfundur Mikaela Nyman. Ljóða­bók, Ellips förlag 2019.

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Lifandilífslækur - Bergsveinn Birgisson

Bókmenntir

Ísmeygileg ádeila á vald og forréttindi

Bókmenntir

Blæbrigðaríkar smásögur frá efnilegum höfundi

Bókmenntir

Tæknin myndar flekaskil milli kynslóða