Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Tilkynna sjúkraþjálfara til Samkeppniseftirlits

12.11.2019 - 09:58
Mynd með færslu
 Mynd: Bragi Valgeirsson - RÚV
Þeir sem eru í meðferð hjá sjúkraþjálfurum þurfa frá og með deginum í dag að greiða fullt gjald og sækja sjálfir niðurgreiðslu til Sjúkratrygginga Íslands. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Félagi sjúkraþjálfara. Sjúkraþjálfarar hafa sagt sig frá samningi við Sjúkratryggingar en stofnunin segir það ekki heimilt með svo skömmum fyrirvara. Forstjóri Sjúkratrygginga hefur tilkynnt félagið til Samkeppniseftirlitsins vegna gruns um ólögmætt verðsamráð.

Í yfirlýsingu sjúkraþjálfara segir að þeir geti ekki haft milligöngu um sjálfvirka endurgreiðslu með rafrænum hætti á hlut ríkisins í gjaldi sjúklinga. Þá segir í yfirlýsingunni að samningur sjúkraþjálfara við Sjúkratryggingar hafi runnið út 31. janúar síðastliðinn. Þá er birt bréf forstjóra Sjúkratrygginga til Félags sjúkraþjálfarar þar sem segir að frestur sem stofnuninni hafi verið gefinn til að bregðast við sé „skammarlega naumur“. Í yfirlýsingu sjúkraþjálfara segir:

Sjúkraþjálfarar sætta sig ekki við að starfa áfram á samningi sem ekki hefur verið leiðréttur í 9 mánuði. Þetta gerist í framhaldi af því að boðað var opið útboð á þjónustu sjúkraþjálfara, sem þeir telja að verði skaðlegt fyrir sjúkraþjálfun í landinu. 

Þá segir að opið útboð sem Sjúkratryggingar hafi boðað á sjúkraþjálfun sé „ávísun á fullkomna óvissu.“ Útboðinu hafi svo verið frestað til 15. janúar Þá segir:

Undir kvöld í gær barst síðan bréf frá forstjóra S.Í. Það reyndist  innihalda rangfærslur og hótanir í garð sjúkraþjálfara, sem ævinlega hafa hagað málflutningi sínum og ákvörðunum með hagsmuni skjólstæðinga í huga. Forstjórinn fullyrðir þvert á móti að sjúkraþjálfarar séu skeytingarlausir um hagsmuni sjúkratryggðra. Við undrumst þau ummæli, svo ekki sé meira sagt.

Tilkynna Félags sjúkraþjálfara til Samkeppniseftirlitsins

Í bréfi Maríu Heimisdóttur, forstjóra Sjúkratryggina Íslands (S.Í.), segir ennfremur:

Að síðustu líta SÍ það mjög alvarlegum augum, reynist það rétt vera, að Félag sjúkraþjálfara hafi með einum eða öðrum hætti sent félagsmönnum sínum gjaldskrá til að starfa eftir frá og með 12. nóvember nk. Er SÍ því nauðugur sá kostur að tilkynna Samkeppniseftirlitinu grun um hugsanleg brot á reglum samkeppnislaga er varða ólögmætt verðsamráð.