Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Tilgangurinn að efla sjálfbærni sveitarfélaga

Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson - RÚV
Umdeildasta aðgerðin í þingsályktunartillögu um áætlun í málefnum sveitarfélaga er ákvæðið um lágmarksfjölda íbúa, sagði Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, sem mætti nokkurri mótstöðu þegar hann mælti fyrir þingsályktunartillögu um sveitarfélög á Alþingi í morgun.

Tillagan er stefnumótun til ársins 2033. Mesta athygli hefur vakið að gert er ráð fyrir að lágmarksfjöldi íbúa í sveitarfélögum verði 250 árið 2022 og 1.000 árið 2026. Sveitarfélögin verða þá 40 en eru 72 nú. Einnig er lagt til að tekjustofnar sveitarfélaga verði endurskoðaðir og hvort flytja eigi fleiri verkefni frá ríki til sveitarfélaga. Þá verði skoðað hvernig fjölga megi opinberum störfum á landsbyggðinni.

Spurður hvort þetta sé eina færa leiðin segir Sigurður Ingi að svo sé ekki. „Að sjálfsögðu eru til aðrar leiðir. Þetta er niðurstaða starfshóps sem að í sátu fjölmargir sveitarstjórnarmenn og hefur verið vel tekið þar.“

Boltinn sendur til sveitarfélaganna

„Hún byggir á því að efla sjálfbærni sveitarfélaganna til þess að geta veitt íbúunum sem jafnasta þjónustu og það er eitthvað sem við hjá ríkisvaldinu þurfum að hafa skoðun á,“ segir Sigurður Ingi. „Jafnframt er lögð áhersla á að sú þjónusta sé veitt á grunni lýðræðislegrar stjórnsýslu, það er að segja að þeir sem eru kjörnir með sína stefnu séu að veita hana en ekki með samningum við einhverja aðra.“

Sigurður Ingi segir að í þingsályktunartillögunni sé verið að skapa tækifæri fyrir sveitarfélögin til þess að móta það samfélag sem þau vilja skapa. „Einn þáttur í því getur verið að sameina sveitarfélög. Sameining sveitarfélaga er ekki sameining samfélaga. Hér er bara tækifæri til þess að sveitarfélögin taki við boltanum.“

Gert er ráð fyrir að ríkið þurfi að leggja til allt að 15 milljarða á næstu 12-15 árum vegna kostnaðar sem hlýst af sameiningu sveitarfélaga. „Það er til þess að lækka skuldir og líka til að standa undir breytingarkostnaðinum. Og það er líka til þess að það sé hægt að búa til þetta nýja þjónustustig,“ segir Sigurður Ingi.

 

sigridurda's picture
Sigríður Dögg Auðunsdóttir
birgirthh's picture
Birgir Þór Harðarson
Fréttastofa RÚV