Tilboð í eyjuna Vigur samþykkt

21.08.2019 - 17:36
Mynd með færslu
 Mynd: Jóhannes Jónsson - RÚV
Tilboð í eyjuna Vigur í Ísafjarðardjúpi hefur verið samþykkt. Salan hefur þó ekki gengið í gegn og verið er að vinna í fyrirvörum við tilboðið, segir Davíð Ólafsson fasteignasali. Ung íslensk fjölskylda gerði tilboð í eyjuna. Þau vilja halda þeirri starfsemi sem þegar er á eyjunni og hafa hugmyndir um að auka við hana, segir hann.

Lágmarkstilboð í eyjuna 330 milljónir

Eyjan hefur verið til sölu í rúmt ár. Erlendir aðilar sýndu kaupunum aðallega áhuga. Tilboð frá erlendum einstaklingi í eyjuna var dregið til baka í lok júlí vegna reglna um sóttkví og einangrun gæludýra við komu til landsins. Þá var opnað fyrir tilboð á ný.

Lágmarkstilboð í eyjuna var 330 milljónir, sagði Davíð í samtali við fréttastofu í kjölfar þess að tilboðið var dregið til baka. Jörð kostar þó það sem fæst fyrir hana, sagði hann, en ekki hafi vantað áhugann. 

Vildu að íslenska ríkið kæmi að kaupunum

Guðmundur Gunnarsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar, sagði í viðtali við Morgunvakt Rásar 1 fyrr á árinu, að Ísfirðingar hefðu raunverulegar áhyggjur af því að auðmenn myndu eignast eyjuna og hún yrði lokuð almenningi. Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar vildi að íslenska ríkið keypti eyjuna og almenningi væri tryggður aðgangur að náttúruperlunni sem eyjan er.

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, sagði í viðtali við Morgunútvarp Rásar 2 í fyrra að það væri áhyggjuefni hve mikill fjöldi jarða hefði verið seldur erlendum fjárfestum. Landið okkar væri auðlind. Eyjan er náttúruperla og sögufrægur staður sem ætti kannski að verja sem eign þjóðarinnar, sagði hún. 

Perlan í djúpinu

Vigur er ein þriggja eyja í Ísafjarðardjúpi og hefur verið kölluð Perlan í Djúpinu. Lengi vel var búskapur í eynni en undanfarin ár hefur ferðaþjónusta tekið við.

Sama fjölskyldan hefur byggt Vigur í meira en 130 ár. Nú er kominn tími til þess að breyta til, sagði Salvar Baldursson, bóndi í Vigur í samtali við fréttastofu. 

Katrín Ásmundsdóttir
vefritstjórn
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi