Til verndar fornmáladeild

Mynd með færslu
 Mynd:

Til verndar fornmáladeild

30.04.2013 - 18:15
Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands, gerðist í dag verndari fornmáladeildar Menntaskólans í Reykjavík. Athöfnin fór fram í hátíðarsal skólans að viðstöddum kennurum og nemendum deildarinnar.

Skólayfirvöld hafa fundið fyrir þrýstingi um að leggja deildina niður í umræðum um styttingu framhaldsskólanáms. Vigdís segir að fornu tungumálin segi okkur allt um það hvernig lífið var fyrir okkar daga. „Við áttum okkur ekki alltaf á því að þessi tungumál eru undirstaða annarra tungumála, það er svo mikil geymd í þessum tungumálum sem við verðum að varðveita.“

Undir þetta tekur Ingólfur Eiríksson, nemi á fornmáladeild. „Maður fær svo mikla innsýn í menningarheim fornaldar og þetta gefur manni mikið, ég er að læra frönsku og þetta hefur hjálpað mér mjög mikið þar.“

Birna Ketilsdóttir Schram, nýkjörinn Inspector Scholae, bendir á að latínukunnátta geti verið praktísk á margan hátt, eins og þegar páfinn í Róm sagði af sér. „Það var bara ein kona sem skildi hvað hann var að segja og var fyrst með skúbbið því hún var búin að læra latínu, og þá sagði ég; þessvegna er ég að læra latínu!“

Og Matthías Tryggvi Haraldsson segir puðið vel þess virði. „Maður er oft spurður hvort þetta sé þess virði, og ég svara alltaf sama svarinu: já. Þetta er strembið en merkilegt, og vel þess virði að læra.“