Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Þýsk yfirvöld upplýsa íslensk um Sigmund Davíð

11.10.2017 - 07:31
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Þýska alríkislögreglan hefur miðlað til Íslands upplýsingum um málefni Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar sem byggja á rannsóknum hennar á Panama-skjölunum. Þetta kemur fram í grein Süddeutsche Zeitung, sem fjallar um lögregluaðgerðir á grundvelli upplýsinga úr skjölunum, sem þýsk yfirvöld ákváðu í sumar að kaupa á fimm milljónir evra, jafnvirði um 625 milljóna íslenskra króna.

Ekki kemur fram í grein Süddeutsche Zeitung hvaða upplýsingar um Sigmund Davíð þetta eru, hvort þær eru nýjar eða hvaða yfirvöld hér landi fengu þær í hendur. Ekki er hins vegar annað að skilja á fréttum af gagnakaupum Þjóðverja í sumar en að þetta séu mestmegnis sömu gögn og íslenska ríkið ákvað að kaupa á 37 milljónir í apríl 2015 og fjölmiðlar fjölluðu svo um í apríl í fyrra. Í þeirri umfjöllun kom fram að Sigmundur Davíð og kona hans, Anna Sigurlaug Pálsdóttir, hefðu átt eignir í félaginu Wintris á Bresku Jómfrúreyjum.

Fyrrverandi yfirmaður hjá Siemens til rannsóknar

Grein Süddeutsche Zeitung, sem vann málið með miðlunum Westdeutscher og Norddeutscher Rundfunk, fjallar mestmegnis um kyrrsetningu á tveimur milljónum evra, jafnvirði 250 milljóna króna, úr gömlum mútusjóði þýska stórfyrirtækisins Siemens. Þar segir að fyrrverandi yfirmaður hjá fyrirtækinu í Suður-Ameríku, Hans-Joachim Kohlsdorf, hafi dregið sér fé úr sjóðnum og flutt það til Þýskalands. Hald var lagt á það á tveimur reikningum Commerzbank í Frankfurt og Hamborg.

Saksóknaraembættið í München upplýsti fyrir áratug að Siemens hefði kerfisbundið mútað embættismönnum og ríkisstjórnum um heim allan til að tryggja sér hagstæða samninga. Kohlsdorf var til rannsóknar á þeim tíma en aldrei tókst að sanna að hann hefði sjálfur mútað neinum. Hann býr nú í Mexíkó og ekki liggur fyrir hvort þýsk yfirvöld reyna að fá hann framseldan, að því er fram kemur hjá Süddeutsche Zeitung.

32 manna rannsóknarteymi sett á fót

Eftir kaupin á gögnunum í sumar setti þýska alríkislögreglan á fót sérstakt teymi til að vinna úr þeim. Í því eru 25 rannsakendur og sjö skattasérfræðingar sem hafa það hlutverk að fara í gegnum skjölin og ákveða hvort ráðast skuli í aðgerðir gegn þýskum ríkisborgurum sem þar er að finna.

Í umfjölluninni kemur fram að alríkislögreglan sé að rannsaka þrjú mál til viðbótar og hafi auk þess vísað sjö málum til saksóknara sem varða fjársvik, skattsvik og peningaþvætti. Þá vinni teymið náið með rannsakendum frá öðrum löndum, til dæmis Bandaríkjunum, Bretlandi og Frakklandi. Í því samhengi er upplýsingagjöfin til Íslendinga nefnd.

Uppfært kl. 11:44:
Í upphaflegri frétt misritaðist nafn Önnu Sigurlaugar Pálsdóttur – þar var hún sögð heita Anna Sigríður.