Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Þúsundir mótmæla á Austurvelli

03.11.2014 - 17:11
Mynd með færslu
 Mynd:
Mynd:  / 
4500 manns eru mætt á mótmælafund á Austurvelli sem boðaður var gegn aðgerðum ríkisstjórnarinnar. Margir eru með mótmælaspjöld eða fána. Á þeim má meðal annars sjá stuðningsyfirlýsingar við tónlistarkennara sem eru í verkfalli, mótmæli gegn misskiptingu og spillingu.

Á einu spjaldinu stendur svo „Nýtt Ísland – takk fyrir". Á öðru er að finna mótmæli gegn því að lögreglan og Landhelgisgæslan fái hríðskotabyssur, þar stendur „Upp með hendur - niður með byssur“. Þá er búið að rita orðin „Lifi byltingin“ og „Frelsi“ á standinn sem styttan af Jóni Sigurðssyni stendur á.

Um 6.000 manns  höfðu skráð sig á síðu á Facebook þar sem mótmælin voru boðuð. „Austurvöllur er eiginlega troðfullur af fólki,“ sagði Kári Gylfason fréttamaður í Síðdegisútvarpinu á Rás 2 rétt fyrir klukkan hálf fimm. Þá dreif fólk enn að. Hann sagði fólk halda fram mörgum sjónarmiðum og ólíkum umkvörtunarefnum. Þarna mátti hvort tveggja sjá fólk sem krafðist byltingar og fólks sem veifaði íslenska fánanum.

Lifi byltingin hefur verið ritað á stalli Jóns Sigurðssonar, og hjörtu teiknuð við þau orð. RÚV-mynd: Kári Gylfason.

Svavar Knútur Kristinsson tónlistarmaður ávarpaði mótmælendur. RÚV-mynd: Jóhann Bjarni Kolbeinsson.