Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Þúsundir minntust fórnarlamba og fordæmdu kynþáttahatur

22.02.2020 - 23:41
epa08237816 People hold a banner reading 'Fascism and racism kills everywhere!' as they march for a protest against the racist terror attack in Hanau, Germany, 22 February 2020. At least nine people were killed on 19 February 2020 in two shootings at shisha bars in Hanau, police said. The perpetrator, a suspected far-right extremist, was reportedly found dead later at his home along with the body of his mother.  EPA-EFE/ARMANDO BABANI
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Þúsundir söfnuðust saman í miðborg Hanau í Þýskalandi í dag til að minnast fórnarlamba fjöldamorðsins sem þar var framið á miðvikudag og mótmæla kynþáttahatri, mannfyrirlitningu og ofbeldi hvers konar. Mótmælendur voru um 6.000 talsins og héldu á lofti skiltum og borðum með áletrunum á borð við „Þarf að drepa fólk til að þið bregðist við?" og „Fasismi og rasismi drepa, alstaðar!“

Cem Özdemir, þingmaður Græningja, ávarpaði samkomuna og lagði niður krans á einum þriggja vettvanga ódæðisverksins. Özdemir sagði erfitt að finna réttu orðin á stundum sem þessum, en sagðist vona „að þetta ár verði skráð í sögubækurnar, sem árið, þegar Þýskaland fór að taka á hægri öfgaöflum af fullri alvöru.“ Svipaðar samkomur voru haldnar í fjölmörgum þýskum borgum í dag og í gær.

43 ára heimamaður í Hanau, 100.000 manna borg í Hessen, um 20 kílómetra austur af Frankfurt, myrti níu manns af erlendum uppruna og særði sex á tveimur veitingastöðum og einni hverfisverslun í borginni á miðvikudagskvöld. Síðan fór hann heim til sín og myrti 72 ára gamla móður sína áður en hann svipti sig lífi. Þýskir fjölmiðlar greina frá því að maðurinn hafi verið haldinn djúpstæðum kynþáttafordómum og átt við andleg veikindi að stríða.