Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Þúsundir lunda drápust vegna aukins sjávarhita

02.06.2019 - 14:34
Mynd með færslu
 Mynd: Aleut Community of St. Paul Isla
Þúsundir lunda og annarra sjávarfugla drápust í Beringshafi veturinn 2016-2017 af völdum loftslagsbreytinga og hækkandi sjávarhita samkvæmt bandarískum vísindamönnum.

Fuglarnir voru skinhoraðir og rotnandi er þeir drápust. Meira en 350 dauða fugla, aðallega topplunda, rak á land á St. Paul-eyju í Alaska við strendur Beringshafs.

Tufted Puffin, Zapadni Cliffs, St. Paul Island, Alaska
 Mynd: Wikicommons
Topplundi.

Vísindamenn undir stjórn Timothy Jones líffræðings við Washington háskóla í Seattle í Bandaríkjum rannsökuð hræin. Þeir telja að fuglarnir hafi farist úr hungri. Þeim reiknast til að milli 3.150 og 8.800 fuglar hafi drepist frá október 2016 fram í janúar 2017.

Samkvæmt grein sem birt var í vísindaritinu PLOS One 29. maí eru sennilega tengsl milli örlaga fuglanna og loftslagsbreytinga af mannavöldum sem aukið hafa hita sjávar. Fleiri slík atvik hafa átt sér stað á svæðinu undanfarin ár, sem talið er að einnig megi rekja til loftslagsbreytinga og hækkandi sjávarhita.