Þúsundir flýja flóð á Nýja Sjálandi

05.02.2020 - 03:05
epa05349412 Floodwater flotsam decorates playground swings at a park in Deloraine, Tasmania, Australia, 07 June 2016, as the Meander River flow recedes. More than 100 people have been rescued by helicopters across Tasmania in what Premier Will Hodgman says are the worst floods in the state in 40 years.  EPA/BOB IDDON AUSTRALIA AND NEW ZEALAND OUT
 Mynd: epa
Mikil flóð hrella nú íbúa Suðureyju Nýja Sjálands í kjölfar úrhellisrigninga. Þúsundir hafa neyðst til að flýja heimili sín til að koma sér í öruggt skjól og hundruð ferðafólks eru innlyksa á afskekktu en vinsælu ferðamannasvæði við Milfordsund. Stjórnvöld á Suðureyju lýstu yfir neyðarástandi eftir að yfir 1.000 millimetra úrkoma féll á tveimur og hálfum sólarhring, 60 kukkustundum, með þeim afleiðingum að skriður féllu á fjölfarna þjóðvegi og ár flæddu yfir bakka sína.

Beindu yfirvöld því til rúmlega 6.000 íbúa á láglendi í héruðunum Gore og Mataura að forða sér hið snarasta, þar sem áin Mataura er við það að ryðjast upp úr farvegi sínum. Var þeim ráðlagt að grípa nauðsynleg lyf, klæði og skilríki og forða sér hærra upp í land. Íbúar bæjarins Wyndham, nokkru neðar við ána, hafa fengið tilmæli um að vera viðbúinn því að þurfa að flýja innan skamms.

Rafmagn var tekið af flóðasvæðunum í öryggisskyni og neyðarathvörfum komið upp í kirkjum og skólum. Ferðafólkið við Milfordsund er ekki talið í hættu en unnið er að því að koma þeim í öruggara skjól með þyrlum, þar sem eini vegurinn sem þangað liggur fór í sundur á nokkrum stöðum í flóðunum. Um 200 manns voru við sundið þegar vegurinn lokaðist. Enginn hefur látist í flóðunum og alvarleg slys hafa heldur ekki orðið á fólki. 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi