Athugið þessi frétt er meira en 10 ára gömul.

Þúsundir búa í atvinnuhúsnæði

04.05.2012 - 19:27
Mynd með færslu
 Mynd:
Þúsundir manna búa í atvinnuhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu. Í þeim hópi eru jafnt þeir eru hér eru hér á landi í tímabundinni vinnu og þeir sem eru fæddir hér og eru með börn, segir forvarnarfulltrúi hjá slökkviliðinu.

Fréttastofa heimsótti eitt slíkt hús í Kópavogi í dag og ræddi við Kínverja sem býr þar. Hann sagðist vinna hjá veitingastaðakeðjunni Nings og sagði alla sem í húsinu búa vinna þar. Hann kvað gott að búa þarna og sagði Nings greiða leiguna.

Sex manns búa í húsinu og hafa sameiginlegt eldhús og salernisaðstöðu. Nings hefur haft húsið á leigu í nokkur ár en það var upphaflega ætlað sem söluturn eða veitingastaður eins og umhverfið gefur til kynna.

Bjarni Óskarsson, eigandi Nings, sagði í samtali við fréttastofu að það hafi staðið til að fá samþykki fyrir rekstri gistiheimilis í húsinu en það hafi tafist vegna gjaldþrots húseigandans. „Ég væri alveg til í að búa þarna sjálfur, það er ekkert að þessu,“ segir hann. Hann sagði breytingu húsnæðisins í ferli. „Það tekur ákveðinn tíma og svo bara líður tíminn eins og það er skilurðu. Það truflar mig ekkert rosalega vegna þess að það er enginn í hættu þarna. Það líður öllum vel þarna.“

Þó svo að búsetan sé ólögleg mun húsið vera þeim betri þegar kemur að ólögmætum íbúðum í atvinnuhúsnæði, samkvæmt upplýsingum slökkviliðsins. Það var kallað að öðru atvinnuhúsnæði í fyrrinótt þegar eldur kom upp í húsi við Vesturvör 27. Tvö hús eru á því heimilisfangi og 38 útlendingar eiga þar lögheimili.

„Auðvitað held ég að það kjósi enginn sem á þess kost að búa á þennan máta og það eru ýmsar ástæður fyrir því,“ segir Bjarni Kjartansson, sviðsstjóri forvarnasviðs Slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu. „Sumt fólk er náttúrulega í þessari stöðu út af félagslegri eymd eða öðru og aðrir af því að þeir hafa ekki efni á öðru. Og þetta eru ekki bara einhverjir einstaklingar eða erlent fólk sem er að vinna hérna tímabundið. Þetta er alveg eins íslenskt fólk með börn eða fjölskyldur.“