Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Þurrkur nánast án fordæma

18.06.2019 - 12:17
Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Þurrkurinn á Vesturlandi er nánast án fordæma, segir veðurfræðingur. Fólk verði að fara sérstaklega gætilega þar sem spáð er áfram þurrki og norðanstrekkingi sem veldur því að ef kviknar eldur þá breiðist hann hratt út. Leita þarf aftur til 1971 til þess að finna fimm vikna þurrkatímabil eins og nú á Vesturlandi.

Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra hefur lýst yfir óvissustigi vegna hættu á gróðureldum á Vesturlandi, einkum í Skorradal. Þar er mikill trjágróður og fjöldi fólks í sumarbústöðum. Einar Sveinbjörnsson, veðurfræðingur hjá Veðurvaktinni, segir að þurrkatímabilið sé orðið langt í Skorradal.

„Þetta er nú nánast án fordæma. Mér telst til að það hafi ekki rignt á þessum slóðum frá þrettánda maí og það gerir það að þá eru þetta orðnar fimm vikur sem ekki hefur fallið dropi úr lofti á þessum slóðum,“ segir Einar.

Mjög þurrt hafi verið 2012 á Vesturlandi.

„Síðan var líka þurrt 1971. Þá var fimm vikna samfelldur þurrkakafli á Vesturlandi. Það er svona það sem kemst næst þessu. Nú spárnar eru svo sem ekki upplífgandi hvað þetta varðar. Það er ekki spáð deigum dropa næstu fimm sex dagana,“ segir Einar. 

Þá geri sumar spár ráð fyrir rigningu í næstu viku. Allt leysingavatn hafi runnið fram óvenju snemma vegna hlýinda í apríl og því sé jarðvegur þurrari en ella. Víða um vestanvert og norðvestanvert landið sé jarðvegur orðinn mjög þurr. Einar hvetur fólk eindregið til að fara varlega með eld í þeirri norðanátt sem spáð er á Vesturlandi næstu daga.

„Norðanáttin er slæm. Eins og var í Mýrareldunum á sínum tíma þá var snörp norðanátt. Ef svo illa færi að það kviknaði einhvers staðar í þá er eldur fljótur að breiðast út ef það er vindur. Það segir sig sjálft,“ segir Einar.

Og þau skilyrði eru fyrir hendi núna?

„Já, þegar það er svona strekkingur úr norðri eins og verður næstu daga og það er víst alveg klárt mál að menn verða að fara varlega og halda vöku sinni,“ segir Einar.

Stýrihópur sem vinnur að forvörnum vegna hættu á gróðureldum hefur sett fram ráðleggingar handa þeim sem dvelja á hættusvæði.