Þurrkatímabilinu lýkur í næstu viku

15.08.2019 - 15:45
Mynd með færslu
 Mynd: Eiríkur Egilsson
Víða er orðið ansi vatnslítið, segir Ívar Örn Þórðarson, slökkviliðsstjóri í Dalasýslu á Vesturlandi. Slökkviliðið hefur þurft að færa kúabúinu á Miðskógi í Dölum vatn í þurrkatíð sumarsins. Þá viti hann til þess að fleiri hafi sjálfir sótt sér vatn. Slökkvilið Borgarbyggðar hefur þurft að fara með neysluvatn í veiðihús við Hvítá, segir Bjarni Þorsteinsson, slökkviliðsstjóri. Það sé óvanalegt. Staðan sé ekki góð. Þurrkatímabilinu fer að ljúka, segir veðurfræðingur Veðurstofunnar.

Það þurfi að rigna mikið til þess að ástandið batni

Íbúi sunnan megin Norðurárdals segir að vatn sé nánast á þrotum á bænum hans og nágrannabænum. Lækurinn sé orðinn þurr. Verið sé að spara vatnið og nýta heldur heita vatnið, sem komi úr borholu á staðnum. Það sé soðið og svo kælt til neyslu. Heita vatnið þoli þó ekki endalausa notkun. Það þurfi að rigna mjög mikið til þess að ástandið batni. Hann segir óvíst hvað verði tekið til bragðs ef vatnið klárist.

Kristján Gíslason í ráðhúsi Borgarbyggðar segir að vatnsbirgðir séu víða farnar að minnka. „Allt er orðið mjög þurrt, það er bara þannig,“ segir hann. Hann hafi þó ekki heyrt af því að vandinn sé orðinn verulegur.

Skortur á neysluvatni ömurlegur

Eiríkur Hjálmarsson, upplýsingafulltrúi Veitna, segir að skortur á neysluvatni sé ömurlegur, það viti þeir sem hafi orðið fyrir vatnsleysi heima hjá sér. Ekki reyni aðeins á vegna drykkjarvatns og þvotta heldur verði það að sturta niður mikið mál. 

Hann segir að sumarið hafi verið óvenjulegt. Náið hafi verið fylgst með stöðunni í vatnsbólum. Hvergi hafi þó nálgast skort í veitum á þeirra vegum, svo sem víða á höfuðborgarsvæðinu og Vesturlandi. Hins vegar hafi verið gerðar ráðstafanir og gripið til aðgerða þar sem þótt hefur þurfa. Til dæmis hafi verið gerðar sérstakar áætlanir vegna hættu á gróðureldum. Draga megi þá ályktun eftir sumarið að vatnsból Veitna þoli meiri þurrka en þetta. 

Þurrkatímabili ljúki á mánudag

Ekki hefur gætt mikillar úrkomu á Vesturlandi í sumar. Samkvæmt Veðurstofu voru þar víða óslitin þurrkatíð í fjórar vikur. Í Stykkishólmi var þurrt í 37 daga. Það er lengsti þurrkur sem mælst hefur þar frá upphafi mælinga árið 1856. Vatn í ám er í sögulegu lágmarki.

Elín Björk Jónasdóttir, veðurfræðingur á vakt hjá Veðurstofu Íslands, segir að þurrkatímabilinu ljúki eflaust á mánudag. Búast megi við talsverðri úrkomu eftir helgi á suðurhluta landsins og vestantil. Uppsafnað yfir nokkra daga ætti úrkomumagnið að verða þokkalegt. Búast megi við fyrstu gusunni á þriðjudag, svo aftur á fimmtudag fram á laugardag. 

 

Katrín Ásmundsdóttir
vefritstjórn
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi