Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Þurfum ekki að hafa miklar áhyggjur af stöðunni

27.11.2019 - 13:02
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Leigjendur virðast finna til meira öryggis í húsnæðismálum en áður, samkvæmt nýrri könnun sem kynnt var á Húsnæðisþingi í morgun. Raunverð íbúða hefur aldrei verið hærra og gæti hækkað enn meira að mati yfirhagfræðings hjá Íbúðalánasjóði.

Ný skýrsla um stöðu og þróun húsnæðismála var gefin út í dag og kynnt á Húsnæðisþingi. Þar kemur meðal annars fram að skortur er á íbúðarhúsnæði í öllum landshlutum og gæti þörfin á landinu öllu verið á milli fjögur og sex þúsund íbúðir. Þrátt fyrir að hægt hafi á húsnæðismarkaði er óþarfi að hafa áhyggjur, að mati Ólafs Sindra Helgasonar, yfirhagfræðings hjá Íbúðalánasjóði.

„Í nýjustu tölum sjáum við að það er smá uppsveifla með haustinu. Ég held við þurfum ekki að hafa miklar áhyggjur af stöðunni enn sem komið er, þetta virðist bara vera allt frekar rólegt og flestar spár benda til þess að það verði ef til vill einhver raunverðshækkun á næstu mánuðum, jafnvel næsta ári," segir Ólafur.

Raunverð er engu að síður í hæstu hæðum og vegna þess er meðalsölutími íbúða nú lengri en áður. Það hefur þó skilað sér í auknu jafnvægi á húsnæðismarkaði að mati Ólafs.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Þóra Margrét Þorgeirsdóttir, sérfræðingur hjá Íbúðalánasjóði

Jákvæð þróun á leigumarkaði

Þegar horft er á leigumarkaðinn má greina jákvæða þróun, að mati Þóru Margrétar Þorgeirsdóttur sérfræðings hjá Íbúðalánasjóði.

„Samkvæmt könnun sem gerð var meðal leigjenda þá virðast fleiri vera að upplifa húsnæðisöryggi. Fleiri eru að greiða lægri hlutfall af heimilistekjunum sínum í leigu og fleiri eru að komast í langtímahúsnæði. Þar að auki hefur húsnæðisstuðningur hins opinbera, til leigumarkaðarins, farið vaxandi,“ segir Þóra.

Þrátt fyrir það segja aðeins um 10% leigjenda að þeir kjósi að vera á leigumarkaði og hefur hlutfallið lækkað milli ára.