Þurfum að sekta ef líf eru í hættu

27.03.2020 - 20:04
Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon / RÚV
Þeir sem brjóta reglur um sóttkví, einangrun og samkomubann geta búist við 50-500 þúsund króna sekt. Allt að sex ára fangelsisrefsing liggur við því að valda öðrum viljandi hættu á smiti. Ríkislögreglustjóri segist vona að fólk virði reglur en verði það ekki gert og líf séu í hættu þurfi að sekta.

Alltaf verið skylda að hlýða sóttvarnalækni

Samkvæmt sóttvarnalögum hefur fólki alltaf verið skylt að hlíta fyrirmælum sóttvarnalæknis að viðlögðum sektum eða allt að þriggja mánaða fangelsi. Við höfum heyrt þessi fyrirmæli um sóttkví og einangrun á blaðamannafundum og séð þau á vefsíðum en nú hafa þau verið skráð í formlegar reglur frá heilbrigðisráðherra.

Þar er fjallað um einangrun sýktra, tveggja vikna skyldusóttkví þeirra sem koma frá útlöndum, tilkynningarskyldu, og hvað felst í sóttkví, sem sagt: að einstaklingur fari ekki út af heimili sínu nema brýna nauðsyn beri til, taki ekki á móti gestum og noti ekki almenningssamgöngur. Í ítarskjali frá sóttvarnalækni er þó tekið fram að sem áður megi fólk í sóttkví fara í bíltúr, út með ruslið, og í göngutúr, svo framarlega sem það heldur tveggja metra fjarlægð frá öðrum.

„Ég held að það sé alveg nauðsynlegt fyrir fólk sem er í sóttkví, er ekki veikt – hugsanlega smitað – að fara út að hreyfa sig,“ sagði Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir á upplýsingafundi almannavarna í dag.

Fyrirmæli að tilkynna meint hegningarlagabrot strax

Í reglunum segir að brot gegn þeim geti varðað sektum eða fangelsi samkvæmt sóttvarnalögum, eða samkvæmt 175. gr. hegningarlaga, þar sem segir meðal annars að hver sem veldur hættu á því að sjúkdómur breiðist út, ef hið opinbera hefur gert ráðstafanir til að hefta hann, skuli sæta allt að sex ára fangelsi.

Ríkissaksóknari gaf í dag út fyrirmæli til lögreglustjóra landsins, þar sem segir meðal annars að ef það koma upp einhver álitaefni um mögulegt brot á þessu hegningarlagaákvæði, skuli upplýsa Ríkissaksóknara og Héraðssaksóknara um það þegar í stað og Héraðssaksóknari taki síðan ákvörðun um ákæru.

Misháar sektir

Í fyrirmælunum, sem byggjast á norrænni fyrirmynd, er líka fjallað um hversu háar sektir skuli vera. Þar segir að sektir fyrir að brjóta gegn skyldu um að fara eða vera í sóttkví, eða sinna öðrum sóttkvíarskyldum, skuli nema 50 til 250 þúsund krónum. Brjóti einhver gegn reglum um einangrun skal sekta hann um 150 til 500 þúsund krónur.

Einnig skal sekta fyrir brot á samkomubanni. Hver sá sem sækir samkomu fær 50 þúsund króna sekt og sá sem skipuleggur hana fær 250-500 þúsund króna sekt. Þá skal sá sektaður um 100 til 500 þúsund sem vanrækir að loka starfsemi sinni vegna smithættu.

Þurfa vonandi að sekta sem minnst

„Og það fer náttúrulega bara eftir alvarleika málanna hversu há sektin er hverju sinni, og það mun bara fara reyna á þetta smám saman – vonandi sem minnst,“ segir Sigriður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri.

Hún vonar að fólk virði einfaldlega reglurnar. „En ef það er ekki gert og ef líf er í hættu þá þurfum við að tryggja öryggi samfélagsins og þá þurfum við að sekta og beita viðurlögum,“ segir Sigríður Björk.

stigurh's picture
Stígur Helgason
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi