Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

„Þurfum að nýta samkomubann á réttum tíma“

06.03.2020 - 10:57
Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV
Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn, segir að ekki hafi verið gefið út nein tilmæli um samkomubann en fólki sé frjálst að gera það sem það vill. Ef fólk telji að það sé einhver hætta á því að það dreifi COVID-19 veirunni þá eigi það að grípa til aðgerða. Sóknarprestur á Siglufirði hefur aflýst almennu helgihaldi í þessum mánuði og körfuboltamaðurinn Brynjar Þór Björnsson neitar að spila með liði sínu í kvöld vegna veirunnar.

Víðir segir að það hafi alltaf verið skýrt að hlutir eins og samkomubann til að sporna við útbreiðslu veirunnar séu sífellt í skoðun. „Þetta er mjög gott tól í baráttunni og við munum örugglega nýta það en við þurfum að beita þessu öfluga tæki á réttum tíma.“

Það sé ekki gott að setja á samkomubann og svo bíði menn vikum saman og ekkert gerist. „Þá dettur broddurinn úr því og menn hætta að virða það en síðan kemur tíminn þar sem þarf að virða það.“

Lýst var yfir hættustigi almannavarna eftir að fyrsta COVID-19 smitið greindist hér á landi fyrir viku síðan. Víðir segir að viðbúnaðarstigið verði hækkað þegar upp komi smit milli manna hér á landi. „Sú aðgerð breytir engu stórkostlegu fyrir almenning heldur snýr meira að viðbragðsaðilum. Þetta þýðir hins vegar að þá styttist í að við grípum til sterkari aðgerða eins og samkomubanns en það er ekki samasemmerki á milli þess.“

Og það hefur verið talað um að það sé aðeins tímaspursmál hvenær það gerist;  að veiran smitist á milli manna hér á landi. „Okkur hefur tekist að hægja á því með þessum aðgerðum, að ná í þetta fólk áður en það smitar í kringum sig. Það hefur hægt á þessu því annars værum við komin með smit víðar í samfélaginu. Það getur samt alltaf einhver dottið í gegnum kerfið,  sloppið fram hjá.  Það er bara dagaspursmál, vikur í mesta lagi. “ 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV