Þurfum að búa okkur undir ýmsar ógnir

22.10.2018 - 18:42
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV/Viðar Hákon Gíslason
Forsætisráðherra hugnast ekki heræfingar NATO hér á landi en segir að þeim verði framhaldið svo lengi sem Ísland sé hluti af Atlantshafsbandalaginu. Utanríkisráðherra segir breytta tíma kalla á viðbúnað við nýjum ógnum. 

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, og Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, voru gestir Síðdegisútvarpsins á Rás 2 í dag. Þau segja heræfingar eðlilegan hluta af varnarsamningi Íslands við Bandaríkin. Þeim verði framhaldið svo lengi sem Ísland sé meðlimur í Atlantshafsbandalaginu. Katrín segir afstöðu sína og Vinstri grænna til hernaðarbandalags óbreytta en krafa um afsögn úr bandalaginu hafi ekki verið gerð þegar Vinstri græn fóru í ríkisstjórnarsamstarf.  

„Við höfum ekki skipt um stefnu og við tölum áfram fyrir okkar stefnu sem er sú að við teljum að Ísland eigi að standa utan hernaðarbandalaga en við áttum okkur líka á þeim pólitíska veruleika að við erum með sautján prósenta fylgi í síðustu kosningum. Við segjum því að við erum reiðubúin að standa bakvið þjóðaröryggisstefnu Íslands sem auðvitað fjallar um miklu meira en þessa hluti. Hún fjallar um loftslagsvá, efnahagsvá, náttúruvá og margt fleira sem þar er undir og í raun og veru sérstakt fagnaðarefni að við höfum komið okkur þó saman um það, meirihluti Alþingis, um þjóðaröryggisstefnu sem byggir þá á mjög breiðum grunni því þetta er auðvitað miklu víðtækara en svo að þetta snúist bara um hernaðarógn.  “

Guðlaugur Þór segir þetta hvorki fyrstu né síðustu æfinguna sem verði haldin hér á landi. Hann segir breytta tíma kalla á aukinn viðbúnað. 

„Ef við sjáum það sem gerðist 2014, þá breyttist það mikið umhverfið og það kemur í kjölfar þess sem að gerist í Georgíu og sömuleiðis innlimun Krímsaga og síðan eru ýmsar aðrar ógnir sem við höfum séð sem að menn vilja búa sig undir. Hryðjuverkaógnin er eitt, og það er svo sem ekki bara hefðbundinn hernaður heldur snýr þetta líka að tölvuársum og öðru slíku sem að við höfum séð núna í öðrum löndum sem að eru ansi nálægt okkur og mikilvægt að búa okkur undir,“ segir Guðlaugur Þór.

solveigk's picture
Sólveig Klara Ragnarsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi