„Ásgerður bar strax frá upphafi mikla virðingu fyrir vefnaðinum sem listformi. Litaður þráður sem ofinn var saman í heildstætt verk var í hennar augum ekki ómerkari listræn athöfn en að bera málningu á striga,“ segir Aldís Arnardóttir sýningarstjóri sýningarinnar á Kjarvalsstöðum.
Leitin bar árangur
Mörg verkanna á sýningunni eru í einkaeigu en nýlega vakti leit safnsins að verkinu Stúlka með fugl nokkra athygli. Verkið var verðlaunaverk frá því snemma á ferli Ásgerðar og fannst fyrir rest. „Leitin bar loks árangur þegar Facebook og miðlarnir, meðal annars RÚV, fóru að hjálpa okkur,“ segir Aldís.