Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Þurfti að gera mistök og náði frábærum árangri

Mynd: Listasafn Reykjavíkur / Listasafn Reykjavíkur

Þurfti að gera mistök og náði frábærum árangri

19.03.2020 - 09:08

Höfundar

Á Kjarvalsstöðum gefst nú gott tækifæri á að kynna sér verk Ásgerðar Búadóttur á sýningunni Lífsfletir. Ásgerður var var brautryðjandi á sviði listvefnaðar á Íslandi, og í verkum hennar sameinast aldagamlar aðferðir handverksins og frjáls sköpun nútímamyndlistar.

„Ásgerður bar strax frá upphafi mikla virðingu fyrir vefnaðinum sem listformi. Litaður þráður sem ofinn var saman í heildstætt verk var í hennar augum ekki ómerkari listræn athöfn en að bera málningu á striga,“ segir Aldís Arnardóttir sýningarstjóri sýningarinnar á Kjarvalsstöðum.  

Leitin bar árangur

Mörg verkanna á sýningunni eru í einkaeigu en nýlega vakti leit safnsins að verkinu Stúlka með fugl nokkra athygli. Verkið var verðlaunaverk frá því snemma á ferli Ásgerðar og fannst fyrir rest. „Leitin bar loks árangur þegar Facebook og miðlarnir, meðal annars RÚV, fóru að hjálpa okkur,“ segir Aldís.

Mynd með færslu
 Mynd: Samsett mynd - Listasafn Reykjavíkur
Stúlka með fugl fannst og hangir nú á sýningunni á Kjarvalsstöðum.

Fór á eitt kvöldnámskeið

Ásgerður var í málaranámi í Danmörku til 1949 og án þess að hafa prófað að vinna vefverk keypti hún sér vefstól áður en að heimferð kom. „Svo byrjar hún svona í byrjun stjötta áratugarins að prófa sig áfram með að vefa. Hún sagði sjálf að hún hafi ekki vitað af hverju hún fór að prófa þetta, en sagði líka að hún hefði ekki fundið sig alveg í málverkinu. Hún lærði ekkert að vefa, fór bara á eitt kvöldnámskeið hér í Reykjavík og byrjaði svo. Hún þurfti að gera mistök og náði að lokum frábærum árangri á miðlinum. Hún stendur svolítið ein sem listamaður sem notar vefinn á þessum tíma, en er í raun bara að fást við sömu hluti og aðrir myndlistarmenn, form og liti.“

Rætt var við Aldísi Árnadóttur sýningarstjóra sýningarinnnar Lífsfletir í Víðsjá á Rás 1. Í innslaginu heyrast líka brot úr útvarpsþætti sem Ævar Kjartansson gerði árið 1994 þegar hann heimsótti hljónin Ásgerði Búadóttur og Björn Th. Björnsson. Rosalyn Tureck leikur líka í innslaginu kafla úr hljómborðspartítum Bachs. 

Upplýsingar af Facebook-síðu Listsafns Reykjavíkur:

Viðburðum á vegum Listasafns Reykjavíkur verður frestað frá og með mánudeginum 16. mars á meðan samkomubann er í gildi. Safnið verður opið eftir sem áður. Fylgst verður með fjölda gesta í safnhúsunum og þess gætt að gestir geti haldið hæfilegri fjarlægð sín á milli og hafi aðgang að handlaugum, sápu og handspritti.

Tengdar fréttir

Myndlist

Stúlka með fugl fundin

Myndlist

Auglýsa eftir tímamótaverki á samfélagsmiðlum

Myndlist

Veflistakonan Anni Albers

Myndlist

Tvær sterkar konur