Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Þurfti að bíða í 15 tíma eftir meðferð

29.11.2014 - 19:07
Mynd með færslu
 Mynd:
Mynd:  / 
Mist Edvardsdóttir, sem greindist með alvarlegt krabbamein í júní, beið á bráðamóttöku í 15 klukkustundir eftir viðeigandi meðferð vegna sýkingar. Nauðsynleg lyf voru ekki til á bráðamóttökunni. Krabbameinsdeild gat ekki tekið við henni sökum plássleysis og álags.

Mist er 24 ára landsliðskona í fótbolta og greindist með eitilfrumukrabbamein í júní. Hún fer í lyfjagjöf á tveggja vikna fresti.

Fyrir tveimur vikum fékk Mist alvarlega sýkingu og þurfti að leita á bráðamóttöku Landspítalans í Fossvogi. „Ég sem sjúklingur í ónæmisbælandi lyfjameðferð lendi nánast óhjákvæmilega í því að veikjast á milli lyfjagjafa. Það getur gerst. Og þá get ég ekki leitað beint niður á krabbameinsdeild eftir meðhöndlun og þarf að koma hingað niður á bráðamóttöku. Og maður kemur hingað og fær grímu og sest hérna og bíður. Og bíður eftir að komast inn í svokallaða varnareinangrun. Fyrir tveimur vikum þegar ég kom hérna var ákveðið að það þyrfti að leggja mig inn. En þá var bara ekki pláss, uppi á krabbameinsdeild, þannig að ég þurfti að bíða hérna í fimmtán tíma eftir að komast,“ segir Mist. Þá hafi hún loks komist inn á krabbameinsdeild 11G á Hringbraut. 

Guðlaug Rakel Guðjónsdóttir, framkvæmdastjóri bráðamóttökunnar, segir 15 tíma óvenjulangt. Markmiðið sé að flestir sjúklingar séu lagðir inn innan sex klukkustunda. „En reyndin er þannig að það er helmingur sjúklinganna sem nær því. Almennt er það nú þannig að það er ívið löng bið inn á krabbameinsdeildina og ég held að þar séu einfaldlega of fá rúm,“ segir hún. 

Nánar er rætt við Mist í viðtali hér að ofan.