Athugið þessi frétt er meira en 10 ára gömul.

Þurfa að vinna 1.maí

25.04.2012 - 08:07
Mynd með færslu
 Mynd:
Starfsfólk Kringlunnar og Smáralindar fær ekki frí á baráttudegi verkalýðsins 1. maí. Formaður VR fer þess á leit við forsvarsmenn verslanamiðstöðvanna að þeir endurskoði ákvörðun sína og hafi lokað á þessum degi.

Stefán Einar Stefánsson, formaður VR, ritar opið bréf til Kringlunnar og Smáralindar í Morgunblaðinu í dag  þar sem hann skorar á forsvarsmenn þessara verslanamiðstöðva að endurskoða ákvörðun sína og hafa lokað 1. maí.

Stefán segir að á síðustu árum hafi sú þróun orðið á vinnmarkaði að þeim fækki sem njóti frítöku á þessum degi. „Og mér finnst óþarfi af stórum og öflugum fyrirtækjum eins og þessum verslanamiðstöðvum að gera lítið úr þessum degi með því að bjóða upp á eins konar sunnudagsopnun í tilefni þeirra.“

Hann bendir á að verslunarfólk fái ekki einu sinni frí á sínum eigin frídegi: Frídegi verslunarmannna. „Þannig að mér finnst í raun bera í bakkafullan lækinn að taka 1. maí líka með þessu móti og gera hann að hversdagslegri flatneskju eins og hvern annan dag.“

Stefán segist hafa orðið var við óánægju hjá starfsfólki Kringlunnar og Smáralindar vegna þessa og gerir ráð fyrir því að ákvörðun um opnun verði endurskoðuð.

„Þetta verður þá væntanlega tekið til umræðu á vettvangi stjórnar og trúnaðarráðs VR á næstu vikum ef það er ekki og við skoðum þetta þá ekki síst í tengslum við næstu kjarasamninga hvaða áhrif þetta hefur.“