Þurfa að taka stikkprufur á sælgætislagernum eftir eld

Mynd: Eggert Þór Jónsson / RÚV
„Þetta er hræðilegt,“ sagði Kári Pálsson, framkvæmdastjóri vélsmiðjunnar Hamars, við fréttastofu í morgun. Pétur Thor Gunnarsson, framkvæmdastjóri sælgætisverksmiðjunnar Freyju, segir fyrirtækið hins vegar hafa sloppið ótrúlega vel og enginn eldur hafi komið upp í húsnæði fyrirtækisins. „Það var lykt og það var allt sem kom hér og aðallega í skrifstofuhúsnæðinu,“ sagði Pétur. 

Pétur segir slökkviliðið hafa unnið ótrúlega vinnu. „Það er þeim að þakka að lagerinn okkar og skrifstofan er í lagi,“ segir Pétur. Pétur segist ekki vera alveg viss um að allar vörur á lager hafi sloppið óskemmdar. „Við þurfum að leggja mat á það og taka stikkprufur af öllum vörum sem eru hér inni. Fara með það í lyktarpróf og sjá hvort það sé brunalykt,“ segir Pétur. Pétur segir að á lagernum séu fyrst og fremst fullbúnar vörur sem séu tilbúnar til þess að fara á markaðinn og svo skrifstofur. 

Pétur segir að þessi eldsvoði hefði getað farið mjög illa með fyrirtækið, enda eru páskarnir framundan. „Þetta er okkar vertíð númer 1, 2 og 3. Þetta er besti tími ársins fyrir okkur og tími sem okkur þykir mjög vænt um. Lager farinn að byggjast upp og mikil framleiðsla,“ segir Pétur.