Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Þungt og synþaskotið síðpönk frá Svíþjóð

Mynd með færslu
 Mynd: Pink Milk - YouTube

Þungt og synþaskotið síðpönk frá Svíþjóð

24.10.2019 - 15:06

Höfundar

Hljómsveitin Pink Milk spilar synþaskotið síðpönk og kemur í fyrsta sinn fram á Íslandi á Iceland Airwaves sem fram fer 6.-9. nóvember. Poppland heldur áfram daglegri umfjöllun sinni um listamenn hátíðarinnar og í dag er það sænska tvíeykið Pink Milk.

Hér höfum við annað atriði frá Svíþjóð, nýbylgju-pönkhljómsveit sem gerir dulræna tónlist innblásna af níunda áratugnum. Maria og Edward Forslund stofnuðu Pink Milk árið 2015. Þau sendu frá sér sína fyrstu smáskífu, Detroit, árið 2016 en komust almennilega á kortið þegar þau gáfu út fallega ábreiðu af laginu I Want To Know What Love Is með Foreigner.

Tvíeykið gaf út nokkrar smáskífur í upphafi árs 2015 og vakti fljótt athygli fyrir hljóðheim sem var í senn myrkur og glitrandi. Þeim hefur verið líkt við nútímalegri The Cure og Joy Division, með þrumandi trommur og vælandi gítar. Þau skipta á milli sín hljóðfærum, Maria syngur og trommar á meðan Edward spilar á gítar og bassa. Pink Milk tóku upp sitt fyrsta efni einangruð í hlöðu á sænsku eyjunni Gotlandi. Þau eru að vinna með dimman hljóðheim, synþaskotið síðpönk, sem hefur samt grípandi króka og laglínur.

Þau gáfu svo út sína fyrstu breiðskífu Purple árið 2017 og fékk hún góðar viðtökur í heimalandinu. Pink Milk var tilnefnd sem besta rokksveit ársins á virtu sænsku útvarpsverðlaununum P3 Gold. Breska tímaritið The Independent sagði plötuna vera „eina þéttustu síðpönkplötu ársins.”

Árið 2018 fór Pink Milk á tónleikaferðalag og hafa vakið athygli fyrir kvikmyndalega innblásnar hljóðmyndir á tónleikum sínum, og hafa komið fram á hinum ýmsu hátíðum og klúbbum á borð við Subkultfestivalen, Trästockfestivalen, Umeå Open og Peace & Love Festival svo eitthvað sé nefnt. Síðasta smáskífa þeirra Heart of Fire kom út snemma árs 2019 og hefur vakið mikla lukku í Svíþjóð.

Pink Milk kemur fram í fyrsta skipti á Iceland Airwaves í ár fimmtudaginn 7. nóvember á Hard Rock Café. 

 

Tengdar fréttir

Tónlist

Semja lög um perverta og pólítík

Tónlist

Angurværar tregavísur um hinsegin ástir

Airwaves

Sænskur elektróprins á sveimi í Reykjavík