Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Þungt högg fyrir Ísland gangi svörtustu spár eftir

06.03.2020 - 10:12
Mynd með færslu
Flugstöðin á Keflavíkurflugvelli er meira og minna mannlaus þessa dagana. Mynd: Eggert Þór Jónsson - RÚV
Alþjóðasamtök flugfélaga, IATA, áætla að tekjutap flugfélaga í heiminum vegna útbreiðslu COVID-19 veirunnar verði á bilinu 63 til 113 milljarðar bandaríkjadala. Það jafngildir átta til fimmtán þúsund milljörðum íslenskra króna.

Er þá eingöngu miðað við tekjutap af farþegaflugi því ekki er búið að meta áhrifin á fraktflug.  

Fyrri spá samtakanna hljóðaði upp á 29,3 milljarða dollara og var þá miðað við að faraldurinn yrði bundinn við markaði tengda Kína.

Gengi hlutabréfa í flugfélögum hefur fallið um 25 prósent á heimsvísu frá því faraldurinn braust út.

Svartasta spá IATA gerir ráð fyrir að farþegum frá Asíu, Evrópu og Miðausturlöndum fækki um allt að fjórðung. Það hefði veruleg áhrif á íslenska ferðaþjónustu, sagði Kristján Sigurjónsson, ritstjóri Túrista.is, á Morgunvaktinni á Rás 1 í morgun.
 
„Ef áhrifin verða sterk eins og þessi alþjóðasamtök flugfélaga reikna með, þá getum við séð að fjöldi ferðamanna færi niður í um 1,6 milljón ferðamanna en til samanburðar voru um tvær milljónir ferðamanna á Íslandi í fyrra. Þannig að það gæti orðið umtalsvert högg,“ segir Kristján.