Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Þungir dómar vofa yfir amfetamínframleiðendum

01.09.2019 - 13:29
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink RÚV - RÚV Anton Brink
Þrír menn sem ákærðir eru fyrir að framleiða amfetamín í sumarbústað gætu átt von á þungum fangelsisdómum verði þeir sakfelldir, sé miðað við eina dóminn sem fallið hefur fyrir amfetamínframleiðslu hér á landi.

Fréttastofa sagði frá því í gær að Héraðssaksóknari hefði fyrir helgi ákært þrjá menn fyrir að framleiða átta og hálft kíló af amfetamíni í sumarbústað í Borgarfirði.

Eini dómurinn sem hér hefur verið kveðinn upp fyrir framleiðslu amfetamíns féll í Héraðsdómi Reykjaness haustið 2009 og var staðfestur í Hæstarétti í febrúar árið eftir. Tveir menn, Jónas Ingi Ragnarsson og Tindur Jónsson, voru dæmdir fyrir að koma upp amfetamínverksmiðju í Hafnarfirði. Þar fundust íblöndunarefni sem dómstólar töldu að hefðu dugað í fjórtán kíló af hreinu amfetamíni.

Framleiðsla metin alvarlegri en innflutningur

Tindur fékk átta ára fangelsisdóm í málinu og Jónas tíu ára dóm. Enn í dag hefur enginn fengið þyngri dóm í fíkniefnamáli á Íslandi en Jónas – þótt þrír aðrir hafi einnig fengið tíu ár. Í dómnum yfir Jónasi og Tindi var sérstaklega tekið fram að framleiðsla fíkniefna yrði að teljast alvarlegri en innflutningur þeirra.

Tindur og Jónas voru báðir með dóma á bakinu, Tindur meðal annars sex ára dóm fyrir líkamsárás og Jónas tveggja og hálfs árs dóm úr líkfundarmálinu svokallaða. Tveir mannanna úr nýja málinu, Alvar Óskarsson og Einar Jökull Einarsson, sem nú heitir bara Einar Einarsson, hafa líka fengið þunga dóma – sjö ár og níu og hálft ár – í Pólstjörnumálinu svokallaða, sem var stærsta fíkniefnasmygl Íslandssögunnar þegar það kom upp fyrir um áratug.

Ekki að öllu leyti eins mál

Mál Jónasar og Tinds annars vegar og nýja málið hins vegar eru ekki að öllu leyti eins. Í því eldra þótti ekki sýnt fram á að búið væri að framleiða neitt amfetamín, heldur bara milliefni sem eru nauðsynleg í framleiðsluna, en í því nýja var lagt hald á átta og hálft kíló af meðalsterku fullunnu amfetamíni. Á hinn bóginn ætluðu Jónas og Tindur að fullframleiða amfetamínið alveg frá grunni, á meðan í því nýja var amfetamínbasi fluttur til landsins og svo fullunninn í duft hér.

Jónas var raunar einnig dæmdur fyrir að hafa í fórum sínum átján kíló af kannabisefnum, en á móti kemur að þremenningarnir í nýja málinu eru einnig ákærðir fyrir að standa fyrir umfangsmikilli kannabisræktun í útihúsi við bæ á Suðurlandi.