Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Þú munt alltaf þurfa hærri laun

Mynd: Pixabay / Pixabay

Þú munt alltaf þurfa hærri laun

23.02.2020 - 10:18

Höfundar

Að vera Íslendingur er að þekkja ekkert annað en að lifa á efnahagslegu jarðsprengjusvæði, segir Halldór Armand Ásgeirsson í pistli.

Halldór Armand Ásgeirsson skrifar:

Það var sumarið 2018 þegar ég lá uppi í sófa í Berlínarborg, einhver staðar suður af Alexanderplatz, og gerði heiðarlega tilraun til að lesa bók í mesta hitanum þegar bankað var á dyrastafinn hjá mér. „Kom inn,“ tókst mér að stynja upp og dró handarbakið eftir gljáandi enninu til að þurrka svitann sem bogaði niður úr hársverðinum. „Ég er með slæmar fréttir, Halldór, mér þykir þetta afar leitt.“ Þetta var konan sem ég framleigði herbergi hjá, það er að segja, hún hafði leigt íbúðina sjálfa í 10 ár, en leigði mér svo eitt herbergið í nokkra mánuði. „Við erum búin að reyna allt, íbúarnir hérna í húsinu, við erum búin að tala við leigjendasamtökin og lögfræðingana þar, við erum búin að senda bréf á fyrirtækið sem á húsið, en það verður víst ekki umflúið. Leigan verður að hækka núna frá og með næstu mánaðarmótum.“

Þarna stóð hún í dyragættinni og neri saman höndunum og ég var ekki frá því að ég sæi glampa á tár í augum hennar yfir því að þurfa að færa mér þessi hörmungartíðindi. Ég reis upp við dogg á sófanum, sleipur eins og selur, og byrjaði að nudda augun því ég var næstum hættur að sjá fyrir svita. „Nú dámar mér ekki,“ sagði ég rólega. „Það eru hræðilegar fréttir.“

Umsvifalaust fór ég að hugsa um hækkanirnar sem ég þekkti frá Reykjavík. Það eru ekki mörg ár síðan vinir mínir leigðu saman fjögurra herbergja íbúð á Njálsgötu á 150 þúsund krónur á mánuði með öllu. Hvað kostar þessi íbúð í dag? Ég vil ekki einu sinni vita það, en það er alveg ljóst að leigan hefur hækkað um lágmark 100% á þessum átta árum eða svo. Verandi Íslendingur er maður auðvitað vanur því að allt hækki stanslaust alltaf. 

Þegar ég fer í bakarí í Reykjavík byrja ég alltaf á því að skoða súkkulaðisnúðana, bæði vegna þess að þeir voru uppáhaldið mitt þegar ég var lítill, en líka vegna þess að þeir eru mín persónulega Big Mac-vísitala, ég get fylgst með verðlagsþróun á Íslandi gegnum þá. Á tíunda áratugnum kostuðu þeir eitthvað í kringum 60 - 70 krónur stykkið. Í dag held ég að verðið á þeim sé eitthvað kringum 350 kall. Annað dæmi er flugrútan. Þetta er klassísk spurning milli glottandi Íslendinga í útlöndum. „Jæja, hvað kostar núna í rútuna?“ 2.300. 2400. 2.490. 2.590. 2600. 700. 800. 900. 3000. 3 og 1. 3 og 2.

Stöðugur og traustur óstöðugleiki

Ég vil taka það fram að ég er í þessu tilviki ekki að tala um okur, þetta er bara hlutlæg lýsing á því hvernig lífið er í töfrahagkerfinu í Norður-Atlantshafi þar sem allt er víst fullkomið og engin vandamál til. Allt hækkar stanslaust, alltaf, eini stöðugleikinn sem við þekkjum er óstöðugleikinn sjálfur, það eina sem hægt er að gera ráð fyrir er að það er ekki hægt að gera ráð fyrir neinu, það lækkar aldrei neitt í verði, nema reyndar sjónvörp, fyrir nokkrum árum, þegar sú pólitíska ákvörðun var tekin – sem ekki verður kölluð annað en epísk – að hækka virðisaukaskatt á mat og bækur, svo það væri hægt að lækka vörugjöld á raftæki. Þessi ákvörðun er mér allt að því guðfræðileg ráðgáta.

En blessuð konan, sem húkti þarna tárvot í dyragættinni og neri saman lófunum, vissi auðvitað ekki að hún væri að tala við mann sem þekkir ekkert annað en þetta ástand. Að vera Íslendingur er að þekkja ekkert annað en að lifa á efnahagslegu jarðsprengjusvæði, eða eins og einn vinur minn komst að orði, „lífið hérna er eins og að keyra bíl með götóttan benínstank. Bensínið hverfur bara og maður þarf alltaf að vera að fylla á.“ Eða eins og ein önnur sagði: „Að vera á Íslandi er eins og að vera á skólalóð og það er alltaf einhver að taka húfuna af þér. Linnulaust, aftur og aftur. Þú getur ekkert annað gert en að fá þér nýja húfu, eða verða skítkalt.“

„Hvað erum við að tala um?“ sagði ég og teygði mig yfirvegaður í vatnsflöskuna eins og sannur fagmaður í verðhækkunum. Varir hennar titruðu meðan hún safnaði kjarki til þess að stynja upp tölunni. „12 evrur! Elsku Halldór, mér þykir svo fyrir þessu,“ sagði hún og röddin brast. Ég skellti upp úr. „Tólf evrur? Ég hélt þú værir að fara að segja 120 evrur.“ Já, leigan var að hækka um sautjánhundruðkall á mann og allt húsið var búið að tala við lögfræðinga og var nú í einhvers konar sorgarferli yfir þessu. Nema ég auðvitað, sem þekki ekkert annað en óstöðugleika og endlausar verðhækkanir.

Í Belgíu þekkja þau ekki seðlabankastjórann

Ég er auðvitað að ýkja frásögnina af því hvernig hún sagði mér frá þessu, en sagan er í grunninn sönn. Það er auðvitað ekkert gamanmál að leigan hækki. Það munar fullt af fólki um sautjánhundruðkall, ekki síst hér í Berlín sem er yfir höfuð fátæk borg. En það voru mín eigin nonsjalant viðbrögð sem fyrst og fremst voru áhugaverð. Ég hló að henni eins og hún væri fáránleg, en auðvitað var það ég sem var fáránlegur. Ég brást við fréttum af leiguhækkun eins og verið væri að segja mér jafnsjálfsagðan hlut og að sólin muni koma aftur upp í fyrramálið. Það hækkar allt stanslaust alltaf, er það ekki? Leigan, súkkulaðisnúðurinn, flugrútan. Það kemur á daginn að annað fólk sér heiminn ekki þessum augum. 

Góður vinur minn bjó í Belgíu og einhverju sinni fékk ég skilaboð frá honum upp úr þurru í símann minn. „Ég er búinn að vera að prófa að gamni að spyrja fólk hérna hvað seðlabankastjóri Belgíu heiti,“ sagði í skilaboðunum. „Það veit það enginn og þetta þykir heldur furðuleg spurning. Það sama gildir um vaxtastig. Ég spyr hvernig vextir hérna séu af húsnæðislánum og svona og fólk bara yppir öxlum og setur upp írónískan svip svona eins og ég sé að spyrja það út í efnafræðilögmál eða tilurð alheimsins. Það er enginn að pæla í þessu, fólk veit ekki einu sinni hver fjármálaráðherrann er.“

Ein skýring er sú að almenningur í Belgíu sé svona hirðulaus að hann nenni ekkert að pæla í því af hverju lífsgæði hans stjórnast. En önnur skýring og betri er sú að hinn almenni Belgi pæli ekki mikið í efnahagsstjórn eða vaxtastigi einfaldlega vegna þess að hann þarf þess ekkert. Verðlagið er stöðugt og fyrirsjáanlegt. Þú veist hvað lífið kostar. Kaffibollinn kostar hér um bil það sama og hann kostaði fyrir fimm árum og ekkert bendir til þess að hann kosti eitthvað annað á næsta ári.

Mig grunar að þessi brjálæðislegi óstöðugleiki sem við erum vön og höldum að sé eðlilegt ástand vegna þess að lygaáróðurinn um það er svo kraftmikill hljóti að hafa mikil áhrif á þá staðreynd að það virðist ekki vera til í dæminu á Íslandi að nokkur starfsstétt sé ánægð með sín eigin kjör. Það skiptir ekki máli hvort það eru flugumferðarstjórar, lögreglumenn eða bakarar. Ég minnist þess ekki nokkurn tímann hafa heyrt talsmann einhverrar atvinnustéttar koma fram og segja: „Heyrðu, við erum bara mjög ánægð með okkar laun. Okkur finnst við fá borgað í samræmi við þær kröfur sem gerðar eru til okkar og þá ábyrgð sem við þurfum að standa undir.“ Það hefur aldrei gerst. Og ég held satt best að segja að áðurnefndur óstöðugleiki sem virðist vera hið náttúrulega ástand í íslenskum verðlagsmálum geri það að verkum að það sé einfaldlega, ja, hvað skal segja, sálfræðilega ómögulegt að vera sáttur við eigin kjör. 

Peningamál eru nefnilega að miklu leyti sálfræði og það sama gildir um lífskjör.

Ástæða þess að það er mjög erfitt sálfræðilega að vera sátt við við eigin kjör á Íslandi er að þú veist að eftir eitt ár, þá verður kaffibollinn tuttugu krónum dýrari, þú veist að leigan verður að öllum líkindum hærri, afborganir af húsnæðisláni, hver veit hvernig þær verða að ári, þú veist að leigubíllinn úr miðbænum verður dýrari, þú veist að fasteignagjöldin verða hærri, þú veist að skáldsagan sem þú ætlar að gefa mömmu þinni í jólagjöf verður dýrari en í fyrra, þú veist að matarkarfan mun bíta fastar í veskið. Með öðrum orðum, þá bara veistu að það eru allar líkur á því að lífsgæði þín verði verri á næsta ári, ja, nema auðvitað ef launin þín hækka. Allt hefur alltaf sífellt orðið dýrara en það var, þú þekkir ekkert annað, og þú hefur enga ástæðu til þess að ætla að það muni breytast á næsta ári, sem gerir að verkum að þú getur ekki verið sátt við það sem þú hefur, vegna þess að ef þú ert sátt eða sáttur, þá muntu dragast aftur úr. Þetta blasir við.

Já, af hverju er gremja í aldingarðinum? Vegna þess að um leið og þú leyfir þér að finna fyrir sátt, þá ertu búin að tapa. 

 

Tengdar fréttir

Pistlar

Ísland er óafsakanlega dýrt II – ógerlegt að lifa spart

Pistlar

Ísland er óafsakanlega dýrt land

Pistlar

Stríðsmottur í Atlantshafi

Pistlar

Af hverju er Ísland svona ógeðslegt?