Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

„Þú ert okkar Astrid Lindgren og Tove Jansson“

Mynd: RÚV / RÚV

„Þú ert okkar Astrid Lindgren og Tove Jansson“

22.04.2018 - 20:45

Höfundar

Guðrún Helgadóttir hlaut í kvöld Sögusteininn, heiðursverðlaun IBBY á Íslandi fyrir framlag sitt til íslenskra barnabókmennta.

Guðni Th. Jóhannesson afhenti Guðrúnu verðlaunin en bækur Guðrúnar, Ástarsaga úr fjöllunum, bækurnar um Jón Odd og Jón Bjarna, Páll Vilhjálmsson og fjölmargar aðrar, eru löngu orðnar sígildar og eiga einstakan sess í hugum margra kynslóða Íslendinga.

„Þú ert okkar Astrid Lindgren og Tove Jansson,“ sagði Guðni í hjartnæmri ræðu. Hann þakkaði Guðrúnu fyrir allt, fyrir bækur sem krakkar og fullorðnir hafa notið í mörg mörg ár, fyrir að skrifa á fallegu og góðu máli, tærri íslensku, veita gleði og láta einlægnina ráða. „Bækurnar þínar eru með boðskap en líka fullar af lífi og fjöri,“ sagði Guðni.

Guðrún gaf við þetta tilefni ungum rithöfundum góð ráð. Það skipti máli að taka eftir öllu í kringum sig, taka eftir því hvort Esjan er brún eða græn eða grá í dag, ef maður tekur eftir þá fái maður hugmyndir. Þá skipti máli að leggja rækt við tungumálið, gegnum lestur og hlustun.

Það er Íslandsdeild IBBY sem veitir Sögusteininn, heiðursverðlaun til þeirra sem hafa gefið okkur mikilvæga fjársjóði með sögunum sínum.