Steinunn G. Helgadóttir gaf síðast út bókina Raddir úr húsi loftskeytamannsins og þar áður skáldsöguna Samfeðra. Steinunn er þekkt fyrir mikla frásagnargleði og er hún söm við sig í Sterkustu konu í heimi, hennar nýjustu bók.
Persónugallerí bókarinnar er stórt og eru gagnrýnendur Kiljunnar sammála um að það sé samansett úr áhugaverðum og heilsteyptum manneskjum. „Við fylgjumst með systkinunum Gunnhildi og Eiði alveg frá fæðingu og þangað til þau verða fullorðin. Þau alast upp við slæmar heimilisaðstæður og takast á við þessa fortíð með mjög ólíkum hætti,“ segir Guðrún Baldvinsdóttir. „Gunnhildur verður líksnyrtir, Eiður verður hugsjónamaður og anarkisti sem finnst skemmtilegast að elda. Saga þeirra er brotin upp með frásögnum frá líkunum sem Gunnhildur snyrtir, þá eru það líkin eða aðstandendur sem segja sögu þeirra.“
Uppbygging bókarinnar gerir það þó að verkum að framvindan mætir afgangi. „Það verður eitthvað að víkja og mér fannst það ekkert koma að sök ... Ég var mjög hrifin af henni, hún er skemmtileg aflestrar.“
Feitasti bitinn í bókinni að mati Þorgeirs Tryggvasonar eru örsögur hinna framliðnu. „Þar eru alveg dásamlegar sögur,“ segir hann, „en sagan af Gunnhildi og Eiði fellur dálítið í skuggann af þessum furðusögum, sérstaklega undir lokin.“ Ákveðnir hlutar bókarinnar verði því vannærðir, „en þetta kemur eiginlega ekkert að sök því ferðalagið er skemmtilegt. Hún hefur mikið vald á því að halda manni rígnegldum við lesturinn.“