Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Þrotabú WOW höfðar riftunarmál upp á milljarða

Mynd með færslu
 Mynd:
Þrotabú WOW hefur ákveðið að höfða á annan tug riftunarmál vegna greiðslna sem langflestar voru gerðar í mars á síðasta ári, greiðslur sem skiptastjórar þrotabúsins telja að hafi verið gerðar á mjög vafasömum tíma í ljósi stöðu fyrirtækisins. Þetta var kynnt á skiptafundi þrotabúsins í dag, samkvæmt heimildum fréttastofu.

Samkvæmt upplýsingum fréttastofu eru greiðslurnar sem krafist er riftunar á taldar nema um tveimur milljörðum.

Skúla Mogensen, fyrrverandi forstjóra WOW, er stefnt í öllum málunum og er gerð skaðabótakrafa á hendur honum þar sem hann samþykkti þær. Eftir því sem fréttastofa kemst næst eru þarna greiðslur til flugvélaeigenda, Skúla, ríkissjóð, Títan og veitingastaðarins Happ, svo fátt eitt sé nefnt.  Samkvæmt heimildum fréttastofu snýst stærsta riftunarkrafan um kaupréttargreiðslur til Títans, móðurfélags WOW. 

Þrotabú WOW hefur farið fram á Títan verði tekið til gjaldþrotaskipta. Þrotabúið gerði árangurslausa kyrrsetningu í eignum félagsins um miðjan þennan mánuð.  Fram kom í Morgunblaðinu að þær eignir sem hefðu fundist voru allar veðsettar Arion banka. 

Greint var frá því í Morgunblaðinu um helgina að hópur skuldabréfaeiganda hefði sent fyrrverandi stjórnendum WOW kröfubréf upp á nokkra milljarða. Þess var krafist að stjórnendur félagsins gengju til samninga en annars myndi málið fara fyrir dómstóla.

Þá hafa skiptastjórarnir sent embætti héraðssaksóknara tilkynningu vegna hugsanlegs brots í rekstri flugfélagsins. Samkvæmt heimildum fréttastofu snýr tilkynningin meðal annars að skuldabréfaútboði WOW og húsnæðismálum forstjóra flugfélagsins.  

WOW var tekið til gjalþrotaskipta þann 28. mars á síðasta ári eftir að flugvélar félagsins höfðu verið kyrrsettar og starfsemi félagsins hætt. Þá hafði það barist í bökkum um nokkurt skeið. 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV