Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Þrotabú United Silicon stefnir Magnúsi aftur

23.08.2018 - 12:31
Mynd með færslu
Magnús Garðarsson, stofnandi United Silicon. Mynd: RÚV/samsett mynd
Þrotabú United Silicon hefur höfðað annað skaðabótamál á hendur Magnúsi Garðarssyni, stofnanda félagsins, fyrir meint fjársvik hans. Málið var höfðað í Héraðsdómi Reykjaness í byrjun ágúst og snýst um 570 þúsund evrur, jafnvirði rúmlega 71 milljónar króna, sem Magnús er talinn hafa látið leggja inn á bankareikning í Danmörku og nýtt í eigin þágu.

United Silicon stefndi Magnúsi fyrir dóm í upphafi árs fyrir fjársvik upp á rúman hálfan milljarð króna með útgáfu falsaðra og tilhæfulausra reikninga á nafni ítalska framleiðandans Tenova Pyromet. Í þeirri stefnu var þess einnig krafist að kyrrsetning eigna Magnúsar yrði staðfest með dómi.

Stefnan byggðist á rannsóknarvinnu endurskoðunarfyrirtækisins KPMG en eftir að stefnan var gefin út uppgötvaði KPMG annan anga málsins: bankareikning í Danmörku á nafni United Silicon sem Magnús virðist hafa látið leggja hluta fjárins inn á, en síðan tæmt og nýtt féð í eigin þágu. Aðrir forsvarsmenn United Silicon höfðu enga vitneskju um þennan reikning og hann var hvergi að finna í bókhaldi félagsins.

Þessi angi er hluti lögreglurannsóknar á meintum fjársvikum Magnúsar sem Héraðssaksóknari fer með.

Magnús mætti fyrir dóm í Hollandi

Og dómsmálin eru fleiri. Eitt þeirra reis í Hollandi fyrr á árinu og varðaði tryggingabætur sem þrotabú United Silicon taldi sig eiga heimtingu á frá þarlendu tryggingafélagi vegna muna- og rekstrartjóns af völdum gallaðs tæknibúnaðar í kísilverinu í Helguvík.

Tryggingafélagið viðurkenndi greiðsluskyldu en vandinn var að tryggingatakinn var ekki United Silicon á Íslandi, heldur félagið United Silicon Holdings í Hollandi. Forsvarsmaður þess var Magnús Garðarsson og tryggingafélagið neitaði að greiða þrotabúinu bæturnar nema með samþykki hans.

Geir Gestsson, skiptastjóri þrotabús United Silicon, segir að vegna þessa hafi verið ákveðið að stefna Magnúsi fyrir dóm í Hollandi og fá hann til að samþykkja greiðsluna til þrotabúsins. Hann hafi orðið við því, mætt fyrir dóminn fyrir hálfum öðrum mánuði og samþykkt að félagið greiddi bæturnar til þrotabúsins, samtals um 112 milljónir króna.

Geir segist í samtali við fréttastofu ekki útiloka að enn fleiri dómsmál verði höfðuð – ýmislegt sé til athugunar.

Greinir á um kröfur Arion banka

Frestur til að lýsa kröfum í bú United Silicon rann út í vor og heildarkröfur námu um 23 milljörðum. Þar af var Arion banki langstærsti kröfuhafinn með 9,5 milljarða kröfur. Geir segir að bara hafi verið tekin afstaða til forgangskrafna og að níu milljarða forgangskröfur Arion banka hafi verið samþykktar en öðrum forgangskröfum meira og minna hafnað.

Tveir kröfuhafar, Íslenskir aðalverktakar og Tenova South Africa, eru ósammála því sumar veðkröfur Arion banka eigi rétt á sér sem forgangskröfur og hafa skotið þeim ágreiningi til dómstóla. Það mál verður næst tekið fyrir í Héraðsdómi Reykjaness 12. september.

Hætt við dómsmál um 59 milljóna kolabing

Þá höfðaði félagið Clean Carbon mál á hendur þrotabúinu og krafðist þess að fá í hendur kol að verðmæti 59 milljóna króna. Clean Carbon taldi sig eiga rétt á að fá kolin aftur, enda hefði ekkert endurgjald komið fyrir þau og ákvæði hefði verið um það í samningum að kolin væru eign Clean Carbon alveg þar til full greiðsla hefði verið innt af hendi.

Þessu neitaði Geir, sagði ekkert slíkt ákvæði til staðar og að ef Clean Carbon teldi að ekki hefði verið greitt fyrir kolin yrði félagið að gera kröfu í þrotabúið eins og aðrir. Á það féllst félagið og dómsmálið var fellt niður í vikunni. Þrotabúið hefur komið kolunum í verð.