Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Þröngur fjárhagsrammi takmarkar aðgengi að HA

30.08.2019 - 18:45
Mynd með færslu
Eyjólfur Guðmundsson við setningu HA Mynd: Háskólinn á Akureyri
Rektor Háskólans á Akureyri kallar eftir samfélagslegri umræðu um hvort hægt verður að tryggja aðgengi fólks að háskólum til framtíðar. Þröngur fjárhagsrammi geri það sífellt erfiðara að keppa um að komast í nám við skólann.

Háskólinn á Akureyri var settur í 32. sinn í dag. Í setningarræðu sinni talaði Eyjólfur Guðmundsson, rektor HA, meðal annars um sífellt þrengri fjáragsramma og erfiðara aðgengi að skólanum þess vegna.

Aukið álag á háskólasamfélagið

„Aldrei hafa fleiri nemendur verið skráðir í skólann en síðustu tvö ár og hefur aðsóknin sýnt að mikill áhugi er á því námsumhverfi sem skólinn bíður uppá,“ sagði Eyjólfur í ræðu sinni. „Þrátt fyrir þessa miklu aukningu hefur fræðasamfélag skólans skilað metári í rannsóknum og ánægja nemenda með námið farið framúr björtustu vonum. Þessi mikla vinna er þó farin að hafa áhrif á okkar háskólasamfélag og við sjáum merki aukins álag í starfsmannakönnunum hjá okkur.“

Harðari aðgangstakmarkanir

Á sama tíma segir Eyjólfur ljóst hver fjárhagsrammi skólans er. Því hafi reynst nauðsynlegt að herða aðgangstakmarkanir til að halda starfseminni innan fjárheimilda og tryggja gæði námsins á komandi misserum. „Þá mun stærri hópur en áður keppa um sæti á vormisseri í samkeppnisprófum við skólann í haust og ljóst er að ekki verður rými fyrir alla þá sem ekki komast áfram í samkeppnisprófum í öðrum greinum.“

Erfiðara aðgengi að háskólanámi

„Það er því orðið erfiðara um aðgengi að háskólanámi fyrir nemendur við Háskólann á Akureyri. Skóla sem hefur sérhæft sig í að veita nemendum um allt land aðgengi að háskólamenntun úr sinni heimabyggð og hefur þannig opnað mörgum tækifæri til háskólanáms - fólki sem ekki hafði slíkt aðgengi áður. Á komandi skólaári er því orðin mikil þörf á samfélagslegri umræðu um hvort og þá með hvaða hætti við viljum tryggja aðgengi fólks að háskólum til framtíðar.“

 

agusto's picture
Ágúst Ólafsson
Fréttastofa RÚV