Þróa lyf gegn tíðaverkjum á Siglufirði

13.09.2019 - 08:08
Mynd með færslu
 Mynd: Björgvin Kolbeinsson - RÚV
Líftæknifyrirtækið Genis á Siglufirði þróar nú lyf gegn tíðaverkjum. Lyfið er unnið úr rækjuskel sem framleidd er í bænum. Forstjóri fyrirtækisins segir of snemmt að segja til um hvenær lyfið geti komið á markað en er mjög bjartsýnn á virkni þess. Aðaleigandi Genis er athafnamaðurinn Róbert Guðfinnsson.

Hafa rannsakað efnið í nokkur ár

Genis opnaði verksmiðju á Siglufirði árið 2012. Þar fara fram rannsóknir og framleiðsla á fæðubótarefni úr svokölluðu kítín sem unnið er úr rækjuskel. Nú stefnir fyrirtækið að framleiðslu lyfja úr þessu sama efni. Hilmar Bragi Janusson, forstjóri fyrirtækisins, segir margt benda til þess að efnið geti unnið á sjúkdómum af svipuðum toga og valda tíðaverkjum. Hilmar greindi fyrst frá þessu í viðtali við ViðskiptaMoggann.

„Þessar áralöngu rannsóknir okkar og skoðanir á kítíni og kítínafleiðum hafa leitt okkur að svona bólgutengdum kvillum," sagði Hilmar. 

Erfitt að segja til um hvenær lyfið geti komið á markað

Hilmar segir það alltaf hafa verið markmið fyrirtækisins að vinna lyf úr kítín. Hann segir erfitt að segja til um hvenær lyfið geti komið á markað en rannsóknir á lyfjum geti tekið nokkur ár. 

„Ég held að ef við náum í gegn klíniskri niðurstöðu sem er jákvæði fyrir tíðarverkina þá ætti það að geta komið á markað tiltölulega hratt."

Óðinn Svan Óðinsson
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi