
Þrjú umferðaróhöpp á Norðurlandi vegna launhálku
Bíll valt á Vatnsnesvegi
Á Vatnsnesvegi valt bíll sem í voru þrír erlendir ferðamenn. Þeir voru allir fluttir á heilsugæsluna á Blönduósi til aðhlynningar en meiðsl eru ekki talin alvarleg. Adolf Ingi Erlingsson leiðsögumaður kom fyrstur á vettvang og aðstoðaði mennina. „Bíllinn þeirra snerist bara og fór á hvolf, við náðum þeim út úr bílnum og ég skutlaði þeim svo á heilsugæsluna. Einn þeirra var skorinn á hendi en að öðru leyti voru meiðslin ekki alvarleg,“ segir Adolf.
Vegrið bjargaði ökumanni í Langadal
Þá missti ökumaður stjórn á bíl sínum í Langadal. Nýtt vegrið við veginn bjargaði því að bíllinn féll ekki ofan í gil. Ökumaðurinn slapp ómeiddur. Þriðja óhappið varð svo á Siglufjarðarvegi þegar ökumaður missti stjórn á bíl sínum og hafnaði utan vegar.
„Mjög varasamar aðstæður“
Höskuldur Erlingsson, aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á Norðurlandi vestra, segir í samtali við fréttastofu að Vegagerðin hafi verið kölluð út til að hálkuverja vegi. „Það byrjaði að rigna upp úr hádegi. Við það mynduðust mjög varasamar aðstæður. Við hvetjum fólk til að fara sérstaklega varlega,“ segir Höskuldur.