Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Þrjú snjóflóð féllu við Flateyri

22.02.2020 - 11:06
Mynd með færslu
 Mynd: Jóhann Jónsson - RÚV
Þrjú snjóflóð féllu utan við Flateyri í veðrinu, sem gekk yfir norðanverða Vestfirði.

Líklegast er talið að þau hafi fallið í gær samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofunni. Snjóflóðin féllu öll vestan við Eyrina. Minnsta flóð féll í Ytra Bæjargili. Hin tvö voru miðlungsstór og féllu úr tveimur giljum utan Ytra Bæjargils. Þau féllu fjarri byggð. Óvissustigi vegna snjóflóðahættu á norðanverðum Vestfjörðum var lýst yfir síðdegis í gær. Því var aflýst í morgun. 

Þá voru fjögur lítil snjóflóð skráð á ofanflóðasíðu Veðurstofunnar fyrir hádegi. Eitt féll í Seljadal við Bolungarvík, utan þéttbýlis, tvö í Rauðagili við Ólafsfjörð utan þéttbýlis og eitt við skíðasvæðið í Oddsskarði við Eskifjörð. 

Athugasemd: Fréttin hefur verið uppfærð. 

Þórdís Arnljótsdóttir
Fréttastofa RÚV