
Þrjú ný COVID-19 tilfelli og níu smitaðir á Íslandi
Þetta kemur fram í tilkynningu frá almannavörnum í kvöld. Þau nýju smit sem greindust í kvöld voru staðfest hjá tveimur konum og einum karli. Þau eru á sextugs- og fimmtugsaldri. Öll þrjú sýna einkenni COVID-19 sjúkdóms, en eru þó ekki mikið veik.
Landspítalinn vinnur nú að því að kortleggja ferðalög heilbrigðisstarfsmanna sinna. Líklegt er að einhver hluti þeirra þurfi að fara í sóttkví, en þar sem heilbrigðiskerfið er viðkvæmt gæti það orðið afdrifaríkt ef upp kæmi smit hjá starfsmanni. Eins og kom fram á blaðamannafundi í dag er biðlað til heilbrigðisstarfsmanna að fresta öllum utanlandsferðum eftir því sem kostur er.
Sóttvarnalæknir minnir á að einstaklingar, með búsetu á Íslandi, sem hafa verið á skilgreindum áhættusvæðum, það er Ítalíu, Kína, Suður Kóreu og Íran og snúa heim eru hvattir til að halda sig heima í 14 daga eftir að þeir hafa yfirgefið skilgreind áhættusvæði.
Um 90.000 staðfest tilfelli vírussins eru nú skráð á heimsvísu. Þar af eru yfir 3.000 látnir og 45.000 hafa náð sér. Fjölgun smita er mest á Ítalíu, í Suður Kóreu og Íran. Sex eru látnir í Bandaríkjunum, allir í Washington fylki. Langflestir sem hafa látist eru aldraðir eða með undirliggjandi sjúkdóma. Ekkert barn undir níu ára hefur látist af völdum veirunnar.