Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Þrjátíu prósent barna á Íslandi fá rör í eyru

09.06.2019 - 12:15
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Það er kominn tími til að endurskoða hefð fyrir röraaðgerðum á Íslandi að mati Ásgeirs Haraldssonar, yfirlæknis á barnadeild Landspítalans. Ný rannsókn sýnir að bólusetning gegn pneumókokkum beri góðan árangur.

„Það virðist vera sem að áhrif þessara bóluefna skili sér seint í fækkun á röraaðgerðum. Það kom okkur reyndar nokkuð á óvart af því að pneumókokkar eru skæðasta bakterían í eyrnabólgum,“ segir Ásgeir.

Hann segir jafnframt að það sé mikil trú á Íslandi fyrir þessum aðgerðum, ekki síst meðal foreldra.  „Það er orðin umtalsverð hefð til að gera þessar aðgerðir á Íslandi en kannski er ástæða til að endurskoða það að nokkru leyti.“

Í kvöldfréttum í gær var sagt frá því að bólusetning við pneumókokkum hafi sparað íslensku samfélagi um milljarð á fimm árum. Pnemókokkar geta valdið alvarlegum sýkingum eins og heilahimnubólgu en líka slæmum eyrnabólgum. Í nágrannalöndunum hefur bóluefnið fækkað röraaðgerðum en ekki á Íslandi.

Allt að fjórum sinnum fleiri aðgerðir á Íslandi

Rannsóknin sýnir að um 30% barna á Íslandi fá rör í eyru. Ásgeir segir að í löndunum í kringum okkur sé þetta vel innan við 10%. „Þannig við erum að gera þrisvar til fjórum sinnum fleiri aðgerðir heldur en löndin í kringum okkur að frátöldum Dönum sem eru skammt undan. Það er umhugsunarefni. “

„Málið er það að það eru þrjár bakteríur sem eru algengastar í eyrnabólgum, tvær þær skæðustu eru nánast horfnar úr þessum sýkingum eftir bólusetningar,“ segir Ásgeir.

Fleiri en ein sýking valdi eyrnabólgu

Yfirlæknir í háls nef og eyrnalækninum á Landspítalanum, Arnar Þór Guðjónsson, segir að það sé jákvætt að þrálátum sýkingum hafi fækkað en það séu aðrar bakteríur en pnumókokkar sem valdi eyrnabólgu. Það að bólusetja fyrir einni hafi ekki áhrif á hinar. Þá séu sýkingar ekki eina ástæðan fyrir röraaðgerðum heldur líka krónískur vökvi í miðeyra, sem valdi heyrnarskerðingu. 

holmfridurdf's picture
Hólmfríður Dagný Friðjónsdóttir
Fréttastofa RÚV