Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Þrjátíu Íslendingum ekki hleypt í flug frá Balí

23.03.2020 - 22:42
epa08314549 Foreigners wear protective mask as they queue up outside the immigration office to extend their visa in Bali, Indonesia, 23 March 2020. The local government closed most tourist spots in Bali in an effort to prevent the spread of the SARS-CoV-2 coronavirus and COVID-19. According to media reports, Indonesia has 514 confirmed confirmed cases of SARS-CoV-2 coronavirus with 48 people dead from COVID-19.  EPA-EFE/MADE NAGI
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Þrjátíu Íslendingar sem eru í hópferð á eyjunni Balí í Indónesíu var ekki hleypt um borð í flugvél frá eyjunni í dag. Farþegarnir þurftu óvænt að framvísa vottorði og fara í sýnatöku til þess að staðfesta að þeir væru ekki smitaðir af COVID-19 kórónuveirunni.

Vésteinn Ólason prófessor er einn þeirra sem ekki var hleypt um borð í vélina. Hópurinn átti að millilenda í Taílandi, en það eru yfirvöld þar sem settu strangari reglur sem gerðu það að verkum að enginn komst frá Balí. Vésteinn segir að hópurinn hafi því snúið aftur á hótelið sitt og viti ekkert hvenær hann komist burt.

„Það væsir ekkert um okkur samt. Allir í hópnum eru hraustir og hressir. Okkar ferðaþjónustuaðilar eru að kanna hvernig hægt er að koma okkur heim og við bíðum átekta,“ segir Vésteinn. Enn er framboð á flugi frá Balí en það er þó að dragast saman. Óvíst er því hvort hægt sé að koma hópnum heim í einu lagi.

Vésteinn segir að hópurinn geti dvalið á hótelinu eins lengi og nauðsynlegt er. Mikil ró hefur færst yfir eyjuna, sem venjulega iðar af lífi, því mikill fjöldi ferðamanna hafi haldið til síns heima að undanförnu. Verslanir eru enn opnar ásamt veitingastöðum og Vésteinn segir að enginn í hópnum sé orðinn órólegur.

„Nei, það finnst mér ekki. Við hittumst í kvöldmat í gærkvöldi og það voru allir hressir. Auðvitað reynum við að passa okkur líka og við förum varlega,“ segir Vésteinn.

Fylgjast með hvert er fært að fljúga

María Mjöll Jónsdóttir, deildarstjóri upplýsingadeildar utanríkisráðuneytisins, segir að málið sé inni á borði borgaraþjónustunnar. Þar er fólk í sambandi við hópinn og fylgst með stöðunni.

„Við erum að fylgjast með því hvað er að gerast um allan heim og hvar er ennþá fært að fljúga. Á meðan einhver leið er möguleg þá erum við að fylgjast með þeim og aðstoða með vottorð héðan um að fólk megi ferðast,“ segir María Mjöll.

Íslensk stjórnvöld mælast til þess að Íslendingar á ferðalagi erlendis eða þeir sem dvelja þar tímabundið íhugi heimferð til Íslands.