Þrjátíu ár frá atburðunum í Peking

04.06.2019 - 09:09
Security officials stand guard in front of Tiananmen Gate next to Tiananmen Square in Beijing, Tuesday, June 4, 2019. Chinese authorities stepped up security Tuesday around Tiananmen Square in central Beijing, a reminder of the government's attempts to quash any memories of a bloody crackdown on pro-democracy protests 30 years ago. (AP Photo/Mark Schiefelbein)
Við Torg hins himneska friðar í morgun. Mynd: ASSOCIATED PRESS - AP
Í dag eru þrjátíu ár síðan kínversk yfirvöld létu til skarar skríða gegn mótmælendum á Torgi hins himneska friðar í Peking. Bandarískir og evrópskir ráðamenn hvetja stjórnvöld i Peking til að gefa upp hversu margir féllu í aðgerðunum. Mikil öryggisgæsla var á Torgi hins himneska friðar í morgun. 

Mikil spenna hefur verið í samskiptum ríkjanna að undanförnu vegna viðskiptastríðsins þeirra á milli og ekki bættu úr skák ummæli Mike Pompeos, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, um atburðina á Torgi hins himneska friðar árið 1989.

Pompeo gagnrýndi framgöngu Kínverja í mannréttindamálum og hvatti stjórnvöld í Peking til að gefa upp hversu margir hefðu látið lífið í aðgerðunum á torginu fyrir þremur áratugum. Talið er að hundruð eða jafnvel meira en 1.000 hafi fallið.

Federica Mogherini, utanríkismálastjóri Evrópusambandsins, hvatti í morgun stjórnvöld í Peking til að aflétta leynd yfir þessum atburðum. Þau yrðu að gangast við þeim og gefa upp hversu margir hefðu fallið og verið fangelsaðir.

Að sögn fréttastofunnar AFP hafa nokkrir kínverskir embættismenn tjáð sig opinberlega um atburðina, en allir hafi þeir varið aðgerðir yfirvalda. Wei Fenghe varnarmálaráðherra Kína, hafi í fyrradag lýst því yfir að þetta hefði verið rétta leiðin til að binda enda á pólitíska ólgu í landinu.

Stjórnvöld í Peking sendu frá sér tilkynningu í morgun þar sem þau vöruðu kínverska þegna við því að ferðast til Bandaríkjanna. Þá sakaði kínverska utanríkisráðuneytið bandaríska löggæslumenn um að áreita kínverska ríkisborgara í Bandaríkjunum.

Kristján Róbert Kristjánsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi