Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Þrír stjórnarerindrekar reknir frá Bólivíu

30.12.2019 - 17:31
epa07999556 Interim President of Bolivia, Jeanine Anez, speaks at a press conference at Government Palace in La Paz, Bolivia, 15 November 2019. Anez announced that this day she hopes to start the process for new elections after the failed elections that led to the resignation of Evo Morales.  EPA-EFE/RODRIGO SURA
Jeanine Áñez, forseti Bólivíu til bráðabirgða. Mynd: EPA-EFE - EFE
Jeanine Áñez, forseti Bólivíu til bráðabirgða, tilkynnti í dag að sendiherra Mexíkós og tveimur spænskum stjórnarerindrekum yrði vísað úr landi. Spánverjar svöruðu því síðdegis með yfirlýsingu um að þrír bólivískir stjórnarerindrekar væru óæskilegir í landinu og yrðu sendir heim.

Stjórnvöld í La Paz grunar að starfsfólk í sendiráði Spánar ætli að reyna að hafa afskipti af níu manna hópi aðstoðarmanna Evos Morales, fyrrverandi forseta, sem hafa leitað hælis í sendiráði Mexíkós í borginni. Talið var að til stæði að einum þeirra yrði laumað úr landi. Stjórnvöld í Mexíkó og á Spáni neita því eindregið.

Evo Morales er landflótta eftir að hann sagði af sér embætti í haust eftir hrinu mótmæla vegna forsetakosninga sem hann kvaðst hafa unnið. Argentínumenn hafa skotið skjólshúsi yfir hann. Morales hefur verið ákærður í Bólivíu fyrir uppreisnaráróður og hryðjuverkastarfsemi.

Ræðismaður Spánar í Bólivíu er meðal þeirra sem vísað hefur verið úr landi. Utanríkisráðuneytið í Madríd fordæmdi í dag ákvörðunina um að senda stjórnarerindrekana heim. Undir kvöld barst tilkynning um að þrír bólivískir diplómatar væru óæskilegir á Spáni og yrði vísað úr landi.

 

asgeirt's picture
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV