Þrír milljarðar eiga að vera heima

25.03.2020 - 17:38
epa08320814 Stranded passengers wait for transportation at the general bus stand during a lockdown in Jammu, India, 25 March 2020. Prime Minister of India Narendra Modi declared a 21-day lockdown across India, which started on 24 March, in a bid to slow down the spread of the ongoing pandemic of the COVID-19 disease caused by the SARS-CoV-2 coronavirus. According to health authorities, India has 519 confirmed cases of COVID-19.
Hópur Indverja í borginni Jammu bíður eftir því að komast heim áður en útgöngubann skellur á. Mynd: EPA-EFE - EPA
Yfir þremur milljörðum jarðarbúa í hátt í sjötíu löndum hefur verið skipað að halda sig heima til að hamla því að kórónuveiran, sem veldur COVID-19 sjúkdómnum, breiðist út.

Þetta kemur fram í samantekt AFP fréttastofunnar sem fylgist stöðugt með útbreiðslu farsóttarinnar. Þar munar mestu um einn komma þrjá milljarða Indverja sem í gær fengu ströng fyrirmæli með skömmum fyrirvara um að fara ekki út úr húsi næstu þrjár vikurnar. Það leiddi til þess að landsmenn þustu í matvöruverslanir í ofboði og tæmdu þar hillur af hrísgrjónum, linsubaunum og öðrum helstu nauðsynjavörum.

Stjórnvöld í fleiri löndum, svo sem Argentínu, Bretlandi, Frakklandi, á Ítalíu og Spáni hafa einnig skipað fólki að halda sig heima nema það eigi brýnt erindi út, sömuleiðis nokkur ríki Bandaríkjanna. Annars staðar hefur verið sett á tímabundið útgöngubann og sóttkví ásamt því að fólki er skipað að halda sig í hæfilegri fjarlægð hvert frá öðru.

Vegna efnahagslegra afleiðinga farsóttarinnar hafa leiðtogar G20 ríkjanna, nítján helstu iðnríkja heims og Evrópusambandsins, verið boðaðir til fundar á morgun. Hann verður haldinn með fjarfundarbúnaði undir stjórn Salmans konungs Sádi-Arabíu, sem er í forsæti hópsins um þessar mundir. Gagnrýnt hefur verið að leiðtogahópurinn hafi brugðist seint og illa við vandanum.

asgeirt's picture
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi